9.5 C
Selfoss

Vitaleiðin komin á kortið – spennandi ferðalag með suðurströndinni

Vinsælast

Vitaleiðin er verkefni sem er búið að vera í undirbúningi hjá Markaðsstofu Suðurlands, sveitarfélagana Ölfus og Árborgar í samvinnu við hagsmunaaðila á svæði leiðarinnar. Fjöldi aðila kom saman að mótun verkefnisins og leiðarinnar sem er nú orðin ákjósanlegur og spennandi kostur á suðurströndinni, hvort sem er fyrir innlenda eða erlenda ferðamenn. Nafngift verkefnisins kemur til vegna vitanna, Selvogsvita og Knarrarósvita sem marka upphaf og enda leiðarinnar. Þá er þriðji vitinn á leiðinni, Hafnarnesviti í Þorlákshöfn.

Vel heppnaður áfangastaður, steinsnar frá borginni og flugvellinum

„Verkefnið er afar spennandi og er þróað af hagsmunaaðilum á svæðinu sem gjör þekkja sitt næsta umhverfi í samvinnu við Markaðsstofu Suðurlands. Niðurstaðan er afar vel heppnaður „nýr“ áfangastaður á Suðurlandi. Hann er nýr að því leyti að nú er komin áhugaverð keðja sem hægt er að fylgja frá upphafi til enda þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Vitaleiðin er steinsnar frá borginni og flugvellinum og tilvalið að aka hana sem leið liggur beint inn á Suðurlandið þegar komið er frá Keflavík,“ segir Laufey Guðmundsdóttir, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands í samtali við Dagskrána.

Ferðaleið sem beinir athygli að þorpunum og svæðinu við sjóinn

Á Vitaleiðinni heimsækir ferðamaðurinn þrjá bæi, hver með sína sérstöðu, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri. Vitaleiðin dregur fram þá miklu sögu og menningu sem er til staðar á svæðinu sem og alla upplifunarmöguleikana í afþreyingu og náttúru. Vitaleiðin er um 45 – 49km leið, fer eftir ferðamáta, sem nær frá Selvogi að Knarrarósvita.

Mikil afþreyingartækifæri í boði

Vitaleiðin bíður þér upp á að vinda ofan þér með aðstoð kyrrðarinnar í náttúrunni en um leið orkuna frá Atlantshafinu. Á Vitaleið getur þú upplifað miðnætursólina og kyrrðina þar sem aðeins heyrast sjávar- og fuglahljóð. Þú getur upplifað birtuna í myrkrinu þegar stjörnubjartur himinn skín, tunglið endurspeglast í hafinu og norðurljósin dansa. Á Vitaleiðinni getur þú sogað í þig þá merku sögu verslunar, mannlífs og sjósóknar sem hefur mótað þorpin við ströndina gegnum aldirnar. Fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar eru á Vitaleið, sundlaugar, kajakróður, hestaleigur, hesthúsaheimsóknir, söfn, gallerý, rib-bátar og fjórhjól svo að dæmi séu nefnd. Veitingastaðir eru í öllum þorpunum með möguleikum á gómsætri matarupplifun. Stígar, strandlengjan og útivistarsvæði á Vitaleið opna þér nýja veröld sem þú átt seint eftir að gleyma!

Ný nálgun á ferðamennsku

„Það sem tekist hefur að gera hér er að sameina þá ólíku þætti menningar, sögu og afþreyingar og búa til heildarpakka sem innifelur allt. Á leiðinni er hægt að láta sjóinn pusa yfir sig á RIB-safari bát, eða njóta þagnarinnar við hafið og horfa á brimið. Heimsækja söfn eða gallerý og njóta matarmenningarinnar sem svæðið hefur upp á að bjóða sem dæmi. Hér er úrval áfangastaða kominn saman í eina samhangandi perlufesti sem liggur meðfram hafinu,“ segir Laufey að lokum.

Nýjar fréttir