0 C
Selfoss

Efling byggir upp til framtíðar í Reykholt í Biskupstungum

Vinsælast

Allt frá árinu 2000 hefur verið til skoðunar að Efling undirbúi byggingu orlofshúsa á landsskika sem félagið á við Reykholt í Biskupstungum. Nánar tiltekið er skikinn úr landi Stóra Fljóts í Bláskógabyggð og stendur suð- austan byggðarinnar í Reykholti, á háholti með miklu útsýni yfir Suðurland og til Flúða. Markmiðið er að byggja þar upp kjarnabyggð sem mun verða þungamiðja í starfsemi orlofssjóðs Eflingar á Suðurlandi í framtíðinni.

Nú er fyrri áfangi 12 húsa byggðar uppkominn og verða 6 hús afhent félaginu við athöfn föstudaginn 26. júní nk. kl. 15.

Sagan á bakvið landið

Sagan á bakvið það hvernig landið komst í eigu Eflingar er um margt merkileg. Árið 1944, þá á vordögum, keypti Verkamannafélagið Dagsbrún landskika austur í Biskupstungum í ákveðnum tilgangi sem var vægast sagt óvenjulegt á þeim tíma. Ætlunin var að nýta landið í þágu félagsmanna Dagsbrúnar og reisa þar mannvirki í því skyni.

Verkamannafélagið Dagsbrún, sem var eitt þeirra félaga sem stóð að stofnun Eflingar með samruna nokkurra félaga, hugðist reisa þarna félags- og hvíldarheimili fyrir Dagsbrúnarfélaga og má á því sjá að þeir sem að því stóðu voru langt á undan sínum samtíma. Hugleiða má hvort þarna sé jafnvel komin fyrsti vísir að orlofsmálum stéttarfélaganna eins og við þekkjum þau mál í dag.

Ekkert varð hins vegar af framkvæmdum á þeim tíma, aðeins reistur braggi sem var eins konar verfæra- og geymsluskúr því félagsmennirnir fóru margar ferðir austur til að sinna girðingarvinnu og fleiru og allt í sjálfboðavinnu.

Má nú, um 75  árum frá kaupum landsins, með sanni segja að tímabært sé að þessar stórhuga   hugmyndir frumkvöðlanna verði að veruleika og félagsmenn Eflingar njóti til langrar framtíðar orlofsdvalar á þessum sérlega fagra stað.

 

Nýjar fréttir