7.3 C
Selfoss
Home Fréttir Þakkarorð til starfsfólks í Árborg

Þakkarorð til starfsfólks í Árborg

0
Þakkarorð til starfsfólks í Árborg

Sveitarfélög á Íslandi og alveg sérstaklega framlínustarfsfólk, gegndu mikilvægu hlutverki í því neyðarástandi sem ríkti í vetur vegna Covid-19. Starfsfólk Árborgar háði daglega baráttu við að halda úti eins mikilli þjónustu og mögulegt var, innan þess ramma sem aðgerðir almannavarna mæltu fyrir um.

Þetta var ekki alltaf auðvelt. Starfsfólk í velferðarþjónustu og fræðslumálum lagði oft mikið á sig til að veita þjónustu við gjörbreyttar aðstæður, og oft í miklu návígi við annað fólk, þegar smithætta var meiri en hún er í dag.

Í skólum, leikskólum og annarri persónulegri þjónustu var úrlausn mála mjög flókið verkefni. Sífellt þurfti að finna nýjar leiðir, m.a. til að mæta fjarveru þeirra sem fóru í sóttkví eða glímdu við veikindi, en einnig til að sníða jafnóðum þjónustuna að þeim takmörkunum sem neyðaraðgerðir almannavarna settu okkur.

Það var áberandi hve starfsfólkið var tilbúið til að láta hlutina ganga upp í því furðulega ástandi sem við glímdum við þessa mánuði. Stjórnendur, forstöðumenn og annað starfsfólk lögðu mikið af mörkum til að stuðla að jákvæðni, baráttuanda og lausnamiðaðri hugsun.

Starfsfólk Árborgar tók ábyrgð og frumkvæði í því verkefni sem við fengum í fangið þann 13. mars síðastliðinn. Þetta leiddi til farsællar framkvæmdar á samkomubanninu og það hefur sést greinilega á viðbrögðum íbúa að þeir kunnu almennt mjög vel að meta hvernig tekið var á málum.

Starfsfólk sveitarfélagsins lagði mikið á sig og á þakkir skyldar. Íbúar hafa sýnt starfsfólki þakklæti sitt í orðum og verki, það er okkur sannarlega mikils virði og er hvatning til dáða í þeim verkefnum sem framundan eru.

Fyrir hönd bæjarstjórnar Árborgar færi ég ykkur öllum hjartans þakkir og óskir um ánægjulegt sumar.

 

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar.