7.3 C
Selfoss

Ný dælustöð Selfossveitna

Vinsælast

Þann 6. maí síðastliðinn var tekin í gagnið ný dælustöð Selfossveitna við Austurveg 67. Um er að ræða aðaldælustöð hitaveitunnar fyrir Sveitarfélagið Árborg, en nýja stöðin eykur verulega afhendingaröryggi á heitu vatni til íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu. Við stöðina er meðal annars varaaflgjafi sem getur keyrt stöðina komi til rafmagnstruflana á landsnetinu. Það eitt kemur til þess að auka afhendingaröryggi á heitu vatni til íbúa Árborgar umtalsvert.

Þreföld dælugeta nýrrar stöðvar

Í samtali við Sigurð Þór Haraldsson, veitustjóra hjá Árborg segir hann stöðina mikið framfaraskref. „Dælustöðin, sú eldri, var keyrð á fullum afköstum sem eru 240 l/sek. Það rétt dugði til að halda hlutunum gangandi í sveitarfélaginu. Skemmst er að minnast þess þegar við þurftum að draga úr heitavatnsnotkun í vetur vegna kulda og laugunum lokað tímabundið. Það var í raun vegna þess að dælubúnaðurinn dugði vart til að keyra allt kerfið. Nú höfum við mun öflugri búnað. Stöðin getur afkastað um 750 l/sek sem ætti að geta afhent heitt vatn í 30 þúsund manna samfélag. Eins og stöðin er sett upp þá eru alltaf ein dæla til vara og því enginn skerðing a þjónustu þó dæla bili. Þetta eins og annað tryggir afhendingaröryggi til íbúa sem er auðvitað okkar aðalmarkmið hér.“

Lykilatriði að hugsa til framtíðar

Það er hugsað stórt hjá Selfossveitum því ekki er tjaldað til einnar nætur í stórum framkvæmdum sem þessum. Aðspurður um hvort þetta sé ekki vel í lagt segir Sigurður: „Það þarf að hugsa til framtíðar í svona hlutum. Afhendingaröryggið er númer eitt, tvö og þrjú. Sveitarfélagið er að stækka og við viljum vera undir það búnir og tryggja að hægt sé að afhenda heitt vatn þrátt fyrir fjölgun íbúa og fyrirtækja í sveitarfélaginu.

 

 

 

Nýjar fréttir