8.9 C
Selfoss

Íbúar í Hrunamannahreppi vilja lágvöruverðsverslun

Vinsælast

Miklar og heitar umræður hafa skapast hjá íbúum í Hrunamannahreppi vegna mikillar óánægju með þær breytingar sem gerðar voru á versluninni á Flúðum þegar nafni hennar var breytt í Krambúð. Nýlega var haldinn almennur íbúafundur en þar var málið tekið fyrir vegna óska um það og íbúar lýstu óánægju. Í kjölfarið var farið af stað með undirskriftasöfnun til þess að hvetja lágvöruverðsverslanir til þess að opna verslun í sveitarfélaginu. Í samtali við Daða Geir Samúelsson, íbúa í Hrunamannahreppi segir hann að það sé mikið kappsmál fyrir íbúa að hafa góða verslun með breytt vöruúrval. „Verslunin Samkaup strax hefur verið þarna lengi. Svo var íbúum tilkynnt að breyta ætti versluninni og lækka vöruverð að allt að tíu prósentum. Á leiðinni varð einhver viðsnúningur með þá ákvörðun og versluninni breytt í Krambúð. Vöruúrvalið er eftir því, orkudrykkir og sælgæti, en íslenskt grænmeti, sem er að miklu leyti ræktað í héraðinu fæst ekki í versluninni og það þykir okkur ekki til fyrirmyndar. Íbúar tala um að þurfi að versla meira en eina til tvær vörur sé betra að aka niður á Selfoss eftir þeim, því slíkur sé munurinn á álagningu. Við teljum að forsendur ættu að vera fyrir því að reka lágvöruverðsverslun hér með góðu úrvali. Það er fjöldi fólks hér í Uppsveitum sem myndi nýta sér það í stað þess að aka niður á Selfoss. Þá er óátalið sú sumarhúsabyggð sem er í kring og þeir ferðamenn sem koma hér allt árið,“ segir Daði Geir að lokum.

Nýjar fréttir