8.4 C
Selfoss

Að lesa er stórkostleg hugarleikfimi og æfing í þolinmæði

Vinsælast

Steinn Vignir er fæddur á Selfossi og bjó þar fyrstu árin. Flutti síðan í Hafnarfjörð og útskrifaðist sem stúdent úr Flensborg. Steinn hefur unnið við matseld, fjölmiðlun og lyfjaframleiðslu en starfar nú við heildsölu og hefur gert það síðastliðin sex ár. Steinn flutti aftur heim á Selfoss árið 2016 og býr núna með sambýliskonu og stúlkubarni í rauðu parhúsi í fyrrum Dísastaðalandi.

Hvaða bók ertu að lesa?

Í dag er ég að lesa Veislu í farángrinum sem heitir á ensku A Moveable Feast eftir Ernest Hemingway í þýðingu Halldórs Laxness og er þar með komin skýring á á-inu í íslenska titli bókarinnar. Hemingway er í vaxandi uppáhaldi hjá mér síðan ég las smásagnasafnið In Our Time sem birtist á þáverandi heimili mínu, um það leyti sem roskin móðir mín ákvað að klára BA-gráðuna sína í enskum bókmenntum. Ég leita oft í gamlar bækur úr námi hennar þegar mig vantar nýja bók á náttborðið.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Það sem ég les mest er saga, styrjaldir og ævisögur og ef það er skáldskapur þá er eins gott að menn hafi fengið nóbelinn fyrir hann. Ég nenni ekki að lesa enn eina Erlends-drulluna eftir Arnald Indriðason. Varðandi ævisögur og þess háttar bókmenntir þá er stór hluti af starfinu mínu að kynnast nýju fólki og stundum er grafið djúpt til að mynda tengsl og það er oft einlægur áhugi minn á fólki gerir mér það kleift. Þ.a.l. eru oft ævisögur á náttborðinu; maður er manns gaman.

Ertu alinn upp við lestur bóka?

Það er löngu orðið tímabært að áðurnefnd roskin móðir mín, Ágústa Rúnarsdóttir, fái uppklapp fyrir sín afrek og eitt af þeim er mér sérstaklega minnisstætt er hún pantaði fimmtu Harry Potter bók J.K. Rowling um leið og hún kom út (það hafði enginn á heimilinu þolinmæði fyrir að bókin yrði þýdd á okkar ylhýra) og las fyrir mig og snaraði jafnóðum yfir á íslensku. Og fyrst ég er byrjaður á J.K. Rowling þá er fjórða bókin hennar, Eldbikarinn, líklega sú bók sem ég hef oftast lesið. Hinsvegar las ég fyrir ekki svo mörgum árum Vopnin Kvödd eftir Hemingway í þýðingu Laxness og það er bók sem ég hugsa oft um, sérstaklega eftir að hafa eignast dóttur mína fyrir tæpum tveimur árum síðan.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Mínar lestrarvenjur eru á þann veg að ég les fyrir svefninn eins og langflestir. Þó tek ég rispur ef heimilishaldið leyfir sem það gerir ekki með hús á byggingarstigi fimm. Þar af leiðandi hefur hugur minn undanfarið leitað til Spánarferðar sem stórfjölskyldan fór í fyrra og ég bankaði úr fjórum eða fimm bókum á tveimur vikum. Að lesa er stórkostleg hugarleikfimi og æfing í þolinmæði, ímyndun og einbeitingu og það er óskaplega sorglegt að ungum drengjum á Íslandi sem vilja og geta lesið sér til ánægju fari fækkandi eins og Framsóknarmönnum.

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund?

Uppáhalds rithöfund get ég ekki valið mér en til að nefna nokkra í engri sérstakri röð yrðu það Kurt Vonnegut, Ernest Hemingway, Hallgrímur Helgason og J.K. Rowling. Þeim tekst öllum að skapa persónur og koma þeim svo til skila að þær eru mér ljóslifandi fyrir augum þurfi ég að kalla þær fram.

En hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Þessa spurningu má skilja á tvo máta, annarsvegar að hafa lesið bók og geta ekki sofnað eftir lesturinn væntanlega vegna kvikindisskapar höfundarins og hinsvegar að geta ekki lagt frá sér bók vegna snilldar og kvikindisskapar rithöfundarins. Oft hefur það gerst fyrir mig að tíminn læðist frá mér þegar allt er orðið hljótt og heimur bókarinn gleypir mína tilveru og færir mig í aðra. Er það ekki annars tilgangurinn? Líklega hef ég ekki eiginlega misst svefn yfir bók og ef það hefur gerst þá verður það leyndarmálið mitt áfram.

En hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Án efa yrðu það ævisögur þar sem frjálslega yrði farið með bæði heimildir og sannleikann og þær væru uppfullar af kynlegum kvistum og skemmtilegum sögum og þversögnum á líðandi stund. Árni Johnsen fullkomnaði þessa pælingu nefnilega og það er eina ástæðan fyrir því að ég er ekki rithöfundur í dag. Það er búið að gera þetta. Á hinn bóginn myndi ég segja að ef ég gæti skrifað jafn rennandi og kærulaust og af jafnmikilli fjarlægri tilfinningu og Ernest Hemingway þá væri ég alkahólisti með átta útgefnar bækur og eina fyrrverandi sambýliskonu.

 

_____________________________________

 

Lestrarhestur númer 93. Umsjónarmaður Jón Özur Snorrason.

 

 

Nýjar fréttir