7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Óábyrg fjármálastjórn í Árborg og leiðtogahlutverk bæjarstjórans

Óábyrg fjármálastjórn í Árborg og leiðtogahlutverk bæjarstjórans

Óábyrg fjármálastjórn í Árborg og leiðtogahlutverk bæjarstjórans
Mynd: Hlöðver Þorsteinsson, Eyrarbakka.
Sigurður K. Kolbeinsson.
Sigurður K. Kolbeinsson.

Stærri fyrirtæki ráða sér gjarnan framkvæmdastjóra sem fer með daglega stjórn á rekstri og ber ábyrgð á honum gagnvart stjórn félagsins. Starf framkvæmdastjóra lýtur m.a. að tíðum samskiptum við sviðs- eða deildarstjóra innan fyrirtækisins sem veita eiga allar nýjustu upplýsingar úr rekstrinum og einnig að gera grein fyrir þeim hættum sem hugsanlega steðja að.  Ef skipulega er unnið eiga upplýsingar um það sem aflaga fer að berast með fljótvirkum hætti til framkvæmdastjórans sem hefur þá tækifæri til að bregðast við með skjótum hætti enda ber hann ábyrgð á daglegum rekstri og þar með afkomu.

Þegar að sveitarfélögum kemur, svo ekki sé talað um hið opinbera, kveður við annan tón.  Þar komast menn upp með að fría sig ábyrgð og vísa á þriðja aðila og/eða benda á utanaðkomandi aðstæður sem valdið hafi skekkjunni.  Úr verður pólitísk umræða í stuttan tíma þar sem meirihluti kjörinna fulltrúa ver gjörðir þeirra sem bera hina raunveruleg ábyrgð og síðan þaggast málin niður hægt og rólega því stöðugt koma ný mál til umfjöllunar.  

Bæjarstjóri Árborgar tók við starfinu í ágúst 2018 og var ráðinn úr hópi 15 umsækjanda.  Hann var m.a. ráðinn á grundvelli reynslu sinnar af sveitarstjórnarmálum og umsamin launakjör hans þá voru 18 millj. kr. á ári auk nýrrar jeppabifreiðar og einhverra fríðinda sem fylgja slíku starfi.  Spyrja má hvort hann var ráðinn til leiðtogastarfs eða verkefnastjórnunar?  Sé hann leiðtogi þarf hann að starfa sem ötull  frumkvöðull sem kemur með hugmyndir sem skapa ný tækifæri fyrir bæjarfélagið, einkum í atvinnumálum auk þess að stjórna öllum daglegum rekstri og gæta þess að ákvörðunum sé framfylgt.  Almennt hljótum við að gera kröfu um að svo hátt launaðir starfsmenn upfylli allar ofangreindar kröfur og nægir að benda á Sveitarfélagið Ölfus í þeim efnum.  Þar er allt á fullu og verið að skapa og þróa ný atvinnutækifæri og uppbyggingu byggðar og innviða til framtíðar.  Sama má segja um Hveragerði og einnig Bláskóagabyggð en bæjar- og sveitarstjórar þessara sveitarfélaga hafa verið talsvert áberandi í ljósvakamiðlum að undanförnu.  Vakið þar athygli á innra starfi, uppbyggingatækifærum og öðru því sem er að gerast í kjölfar Covid-19 ástandsins.  Ég hef saknað slíkra viðtala við bæjarstjóra Árborgar en nýta þarf PR-fulltrúa bæjarfélagsins til að vinna slíka vinnu því fjölmiðlar koma ekki sjálfkrafa á staðinn nema um stórfréttir sé að ræða.

Að stýra bæjarfélagi er eins og að stýra stóru fyrirtæki, menn þurfa að vinna hratt, skipulega og ná yfir alla þætti í daglegri stjórnun.  Allir þeir sem ég hef rætt við úr atvinnulífinu á Selfossi virðast vera á sama máli um að hjá Árborg vanti nákvæmari stefnumótun, einfaldari og fljótvirkari stjórnsýslu og ekki síst framtakssemi sem líkja mætti við gamalt þekkt slagorð; „Frá orðum til athafna“.  En í litlu bæjarfélagi virðast fáir þora að tjá sig um þessi mál af hræðslu við að skerða eigin hagsmuni.

Ef vikið er að fjármálum eru jú öll sveitarfélög, líkt og íslenska ríkið, í erfiðri stöðu þessar vikurnar í kjölfar Covid-19 faraldursins og að sjálfsögðu er það virðingarvert að hlaupið sé undir bagga með fyrirtækjum og einstaklingum þar sem boðið er upp á ýmis úrræði þ.m.t. útgjaldadreifingu.  Það mun að sjálfsögðu hafa sín áhrif á fjárstreymi sveitarfélagsins en áhrifin væru mun minni ef staðið hefði verið betur að fjármálastjórn í  Árborg.  Í því sambandi vil ég spyrja hvernig það hafi getað átt sér stað þegar ráðist var í breytingar á Ráðhúsi Árborgar þar sem áætlað var upphaflega að kostnaður næmi 5 milljón krónum að hann stefni nú í 100 milljón krónur a.m.k?  Tuttuguföld umframkeyrsla þýddi sjálfvirkan brottrekstur bæði framkvæmdastjóra og fjármálastjóra í hverju og einu fyrirtæki en þannig er það ekki í Árborg.  Hver tók endanlega ákvörðun um verkefnið og hvaða vinnubrögð voru viðhöfð við ráðningu á verktaka?  Á hvaða stigum var fjárhagsáætlun breytt og á hvaða tímapunkti voru þær breytingar kynntar? Hver er í raun ábyrgur fyrir þessari vitleysu?  Það er ekki sveitarfélagið sjálft heldur einstaklingar sem þar starfa. Sem óháður bæjarbúi í Árborg óska ég eftir svörum við þessum spurningum.  Hins vegar grunar mig að „menn“ virðist ætla að komast upp með þessi fordæmalausu 

vinnubrögð sem hvergi hafa verið kennd í háskólum en umsögnin um bága verkefnastjórn og um leið ábyrgð á fjármálum sveitarfélagsins mun á endanum verða dæmd af eigendum sveitarfélagsins.  Hvernig stendur á því að svona vinnubrögð eru liðin?  Hvernig má það vera að tvíeykið framkv.stjóri fjármálasviðs og bæjarstjóri Árborgar gátu ekki sameiginlega gert grein fyrir stöðunni fyrr en allt var um seinan?  Eðlilega hlýtur maður að spyrja hvort annarlegar ástæður séu að baki  verktökunni, þ.e. hvort einhver vinatengsl hafi hugsanlega verið í spilinu því svo rækileg framúrkeyrsla er fáheyrð í þessu landi.  Var hefðbundið útboð viðhaft áður en í verkefnið var ráðist?  Eðlilegur hönnunarkostnaður miðast að jafnaði við 5-10% af verkframkvæmdum, þó er hann ávallt hærri hjá opinberum aðilum.  Hversu hár var hann í raun í þessu tilfelli?  Gefum okkur að kostnaður verkefnisins myndi fara 100% fram úr áætlun og allir myndu sætta sig við það, er framúrkeyrslan samt það mikil að hún nemur hærri upphæð en launum bæjarstjórans í þau 4 ár sem hann er ráðinn til starfans.  Er það eitthvað eðlilegt?  Vinnur hann fyrir launum sínum?  

Fleiri dæmi má taka t.a.m. um fjárfestingar á upplýsingasviði sem lúta að rafrænni stjórnsýslu árið 2019 sem mér skilst að verið sé að endurskoða um þessar mundir, aðeins ári eftir að þeirri fjárfestingu var hampað og hún kynnt.  Einnig myndi ég vilja skoða hvernig staðið var að útboði á gerð nýrrar heimasíðu Árborgar auk gríðarlegrar fjölgunar í mannaráðningum á stjórnsýslusviði sem útheimta ærinn launakostnað sveitarfélagsins til framtíðar.  Þetta eru fáein dæmi en umfjöllun um þau bíður næstu greinar minnar um þessi mál.

Virðingarfyllst,
Sigurður K. Kolbeinsson,
framkvæmdastjóri