8.9 C
Selfoss

Heilsuvera – aukin þjónusta heilsugæslunnar á Selfossi

Vinsælast

Heilsuvera er vefur fyrir almenning sem með hjálp rafrænna skilríkja tryggir örugg samskipti við heilsugæsluna.  Undanfarin ár hefur átt sér stað þróun í þá átt að notendur heilbrigðisþjónustu eru í auknum mæli upplýstir og virkir þátttakendur í eigin meðferð. Lög kveða á um rétt einstaklinga til aðgangs að eigin sjúkraskrá. Því er mikilvægt að stuðla að greiðu og öruggu rafrænu aðgengi einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum.  Heilsuvera er gott dæmi um upplýsingatækni innan heilbrigðisþjónustunnar sem eykur öryggi sjúklinga, skilvirkni og gæði.  Notandi Heilsuveru getur átt í samskiptum við veitendur heilbrigðisþjónustu og nálgast gögn sem eru skráð um hann í heilbrigðiskerfinu á Íslandi.

Í dag geta þeir sem eru með skráðan heimilislækni á Selfossi átt samskipti við heimilislæknana þar og aðra starfsmenn eftir atvikum í gegnum Heilsuveru.  Einnig er hægt að senda almenna fyrirspurn á heilsugæslustöðina sé viðkomandi skráður á hana.  Til að nýta sér Heilsuveru þarf rafræn skilríki sem hægt er að fá í banka, en nauðsynlegt er að hafa símakort sem styður slík skilríki.

Á Heilsuveru er mikið af upplýsingum og almennum ráðleggingum sem við hvetjum fólk til að skoða og kynna sér. Eftir að búið er að skrá sig inn á Heilsuveruvefinn með rafrænum skilríkjum er m.a. hægt að skoða rafræna lyfseðla, endurnýja lyf, skoða bólusetningar, skrá inn heilsufarsupplýsingar, panta tíma og fleira. Nýjasta viðbótin í Heilsuveru eru myndsamtöl og er hægt að bóka slík samskipti við lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslunni á Selfossi. Myndsamtöl geta í völdum tilvikum komið í staðinn fyrir viðtöl á heilsugæslustöðinni og hentar t.d. þegar fólk kemst ekki í viðtal á stöðina vegna aðstæðna, búsetu eða heilsu.

Hægt er að hafa samband við heimilislækni í Heilsuveru með því að senda Fyrirspurn. Valinn er liðurinn „samskipti“ og síðan er valin „ný fyrirspurn“.  Í reitinn „efnistök“ má skrifa nafn þess læknis sem á að fá skilaboðin en ef það er ekki gert þá fara skilaboðin til heimilislæknis viðkomandi eða er komið í viðeigandi farveg. Það skal tekið fram að það getur tekið 3 daga að fá svar frá lækninum og er þetta því ekki leið sem nota á við aðkallandi og bráð vandamál. Hins vegar er þessi aðferð hentug varðandi ýmsar upplýsingar sem fólk þarf á að halda og koma þá beint frá lækni, gott dæmi eru rannsóknarniðurstöður.  Allar fyrirspurnir og samskipti í Heilsuveru eru varðveittar í sjúkraskrá og um þessi samskipti gilda sömu lög og reglur og gilda um önnur samskipti í sjúkraskránni.  Hægt er að senda erindi er varða eigin börn undir 16 ára aldri í gegnum eigin aðgang en eftir 16 ára aldur geta börnin sjálf sótt um aðgang að Heilsuveru með rafrænum skilríkjum.

Við hvetjum fólk eindregið til að kynna sér Heilsuveru og nýta sér þessa tækni í samskiptum við sína heilsugæslustöð.  Hagnýtar ráðleggingar um það hvernig nota á Heilsuveru má nálgast víða. Á heimasíðunni er möguleiki á spjalli við starfsmann sem svarar fyrirspurnum. Heilsugæslan svarar einnig fyrirspurnum og veitir ráðleggingar og svo getur fólk leitað til sinna nánustu og fengið leiðsögn hjá vinum og vandamönnum.

Til að nýta sér Heilsuveru sem best mælum við með því að fólk skrái sig á heimilislækni sem hægt er að gera í móttöku HSU.

Margrét Björk Ólafsdóttir hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslunnar á Selfossi

Arnar Þór Guðmundsson yfirlæknir heilsugæslunnar á Selfossi

 

Nýjar fréttir