4.5 C
Selfoss

Ég er í stöðugri leit að hinum fullkomna texta

Vinsælast

Hrafnhildur Magnúsdóttir býr á Selfossi ásamt eiginmanni sínum Jóhanni Ólafi Sigurðssyni og eiga þau tvo syni, Ingimar Bjart og Unnar Þey. Hrafnhildur er með BA próf í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands og MA próf í heimspeki frá Háskóla Íslands. Hún starfar á Skipulagsstofnun við miðlun og stefnumótum. Hún er áhugamaður um listina að lifa og allt sem getur glætt lífið fegurð, gleði og friði.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég á yfirleitt nokkrar í handraðanum til að grípa til, svona eftir því í hvernig stuði ég er og hvað mig vantar þá stundina. Núna er ég með á náttborðinu fyrsta bindi ævintýranna um múmínálfana í Múmíndal, safnbók sem kom út fyrir tveimur árum og síðan annað bindi í fyrra. Þar er svo mikið ævintýri – fullkomin blanda af undri og ógn. Sérstaklega gaman að lesa Halastjörnuna á þessum síðustu og verstu, með heiminn á hvolfi. Ásamt múmínálfunum hef ég líka verið að glugga í nýútkomna bók, Heillaspor, með drengjunum mínum. Mjög falleg bók í mynd og máli sem kveikir skemmtilegar pælingar um allt þetta sem mestu máli skiptir, lífið og tilveruna. Í töskunni er ég svo með ljóðabækurnar Leðurjakkaveður eftir Fríðu Ísberg og Ljóðnámusafn Sigurðar Pálssonar. Engin skáldsaga eins og er, en í fræðilega endann er ég með eina um mjúkt og gönguvænt borgarskipulag, Soft City og aðra um ljóðræn rými, Poetics of Space, sem ég hef reyndar lesið áður en er í uppáhaldi. Sumar þessara bóka fann ég eftir grúsk og leit að einhverju sérstöku, aðrar var mér bent á að ég þyrfti lesa og einhverjar komu bara til mín fyrir tilviljun og vöktu áhuga minn.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Það er svolítið tilviljanakennt. Þær eru allskonar. Ég er svolítið veik fyrir fallegum (í víðri merkingu) bókum og ég hika ekki við að dæma þær eftir kápunni. Góðar ljóðabækur, smá- og skáldsögur eða fræðibækur í fallegu bandi eru gersemar, þar skiptir flokkur ekki höfuðmáli. Ég hugsa samt að ég myndi teljast vandlátur lesandi og gef enga sénsa ef bókin nær mér ekki strax. Ég er í stöðugri leit að hinum fullkomna texta og þegar ég kemst yfir bækur, helst á hægu tempói, sem ná að fanga einhvern skilning á mannlegu hlutskipti og tilvistinni eða ná að framkalla eitthvað alveg sérstakt; rými og tíma, andrúmsloft, skynjun eða tilfinningu – þá er ég sátt og þá skiptir ekki endilega máli hverrar gerðar bókin er. Svo er ekki verra að hafa húmor og smá von, það má ekki vera of mikið myrkur þó það sé nú yfirleitt alltaf í og með.

Fékkstu bókauppeldi í barnæsku?

Bækur hafa skipað ansi stóran sess í mínu lífi síðan ég var peð. Bókum og sögum var haldið að okkur systkinunum heima, það var lesið fyrir okkur og við hvött til að lesa allskonar bækur sem féllu sumar í kramið – aðrar ekki. Ég reyndi til dæmis nokkrum sinnum við Þegar ég varð óléttur eftir Þórberg Þórðarson en hann var í miklu uppáhaldi á heimilinu – og kannski ef aðstæður hefðu þróast með öðrum hætti héti ég líklega Þórbergur í höfuðið á honum. Ég átti eitt lestrartímabil þar sem ég drakk í mig þjóðsögusafn Jóns Árnasonar, Grimmsævintýrin og HC Andersen og svo var það Hringadróttinssaga og Harry Potter – bíð enn eftir uglupósti. Astrid Lindgren og Guðrún Helgadóttir standa líka upp úr, þær voru lesnar fyrir mig í gegn og síðan las ég þær sjálf aftur og aftur og geri enn, núna fyrir mín börn. Ætli það megi ekki segja að það hrjái mig hálfgert barnabókablæti sem ég hef aldrei vaxið almennilega upp úr. Mín allra uppáhalds er nú samt Mómó, eftir Michael Ende sem var reyndar bara til á þýsku heima þegar ég var lítil svo ég drakk bara fyrst í mig kápuna, heilluð af skjaldbökunni og öllum klukkuturnunum en seinna af sögunni eftir að ég komst yfir hana á íslensku. Mómó er ein af þessum sögum sem ég les reglulega enda á hún kannski enn meira erindi við fullorðna eins og gildir vandaðar barnabækur.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Lestrarvenjurnar eru svolítið tilviljanakenndar og fara eftir veðri og vindum. Reyndar er yfirleitt fastur punktur í barnabókalestri fyrir stubbana á kvöldin fyrir svefninn. Fyrir annan lestur, minn eigin, reyni ég að nýta stundir sem skapast inn á milli í hversdeginum til að setjast niður með bók, svona þegar ég næ því og nenni. Ljóðabækurnar og fræðabækurnar liggja dreifðar um húsið og eru í töskunni, þá er auðvelt að lesa smá með kaffibolla en ég er að reyna að fjölga og rýmka þær stundir. Hinar, þá sérstaklega skáldsögurnar, þarf ég að vera mun duglegri að búa til tíma fyrir.

Hefur bók rænt þig svefni?

Já, ég er svona hám-lesari, hverf inn í heim og get yfirleitt ekki lagt frá mér bækur fyrr en ég er búin, svona þegar ég byrja á þeim á annað borð. Síðasta bók sem ég tímdi ekki að leggja frá mér var sennilega Maður sem heitir Ove (er líka svolítið spennt fyrir svona pílagríms-vegferðar-hugsi). Og svo var það reyndar Villigarðurinn sem ég las um daginn og varð svo peppuð yfir að ég sofnaði seint.

En að lokum Hrafnhildur, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Heimspekingurinn og arkitektinn í mér hefur alltaf verið svolítið upptekinn af skynjun og upplifun af heiminum og samspili manns og umhverfis. Ætli það yrðu ekki heimspekilegar og draumkenndar skáldsögur og mögulega ljóðabækur þar sem ég myndi reyna við einhverjar slíkar pælingar og lýsingar. Eða fræðibækur. Skynjun og upplifun og áhrif þeirra á lífið, fegurðin og mörk veruleikans, mannlegt hlutskipti og veran í heiminum þar sem hún á sér óhjákvæmilega stað. Hljómar kannski svolítið eins og mögulegar költ-bækur fyrir þröngan hóp sérvitringa. Gæti orðið skemmtilegt.

_____________________________________

 

Lestrarhestur númer 92. Umsjónarmaður Jón Özur Snorrason.

Nýjar fréttir