9.5 C
Selfoss

Burstabær með fjósbaðstofu rís í Landbroti

Vinsælast

Á bænum Efri-Vík í Landbroti er verið að byggja burstabæ með fjósbaðstofu. Í einni burstinni verður smiðja með þeim tólum og tækjum sem notuð voru á öldum áður. Það er Hörður Davíðsson sem byggir þetta merkilega hús. Byggingarefnið er að mestu hraungrjót og rekaviður. Hugmyndin kviknaði þegar haldið var hleðslunámskeið í Efri-Vík fyrir þremur árum. Þá komu saman níu menn og lærðu handtökin við að hlaða. Seinna var bærinn teiknaður upp og nú er verið að smíða.

Á Suðurlandi voru víða fjósbaðstofur, kýrnar voru þá niðri og baðstofan uppi. Hitinn frá kúnum yljaði fólkinu á vetrarkvöldum. Fram yfir 1960 voru til bæir þar sem fólk bjó við þessar aðstæður, voru þetta hlý og notaleg híbýli en ekkert verður sagt um lyktina. Þjóðminjasafnið heldur við burstabæ með fjósbaðstofu og smiðju á bænum Hnausum í Meðallandi. Hörður segir að markmikið með því að byggja húsið sé að gefa fólki tækifæri til að skoða eitthvað sem minnir á sögu okkar, verklag og híbýlahætti.

Bærinn stendur heima á hlaðinu hjá Hótel Laka og er öllum velkomið að koma heim og skoða byggingarframkvæmdirnar.

 

Nýjar fréttir