1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Milljarða uppbygging í náttúruvernd á Suðurlandi

Milljarða uppbygging í náttúruvernd á Suðurlandi

Milljarða uppbygging í náttúruvernd á Suðurlandi
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.

Fyrir fáeinum árum bárust okkur tíðar fréttir af því að náttúran á vinsælum ferðamannastöðum væri undir miklu álagi, enda hafði fjöldi ferðamanna sem sóttu landið heim margfaldast á skömmum tíma. Þótt nú séu breyttir tímar vegna þeirra áskorana sem kórónaveiran hefur fært okkur þá er vert að halda því á lofti að vegna uppbyggingar undanfarinna ára eru innviðir á náttúruverndarsvæðum og ferðamannastöðum víða um land orðnir til mikils sóma.

Ferðamennirnir munu snúa aftur þegar aðstæður skapast á ný. Og þá er mikilvægt að geta tekið á móti þeim á þann hátt að náttúran beri ekki skaða af. Raunar má nýta tækifærið í millitíðinni til framtíðarskipulags og uppbyggingar.

Í byrjun síðasta mánaðar tilkynntum við Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir um úthlutanir til uppbyggingar innviða á náttúruverndarsvæðum og ferðamannastöðum. Annars vegar var um að ræða styrki úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða, sem er á hennar forræði sem ráðherra ferðamála. Hins vegar ráðstöfun fjármuna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og er á minni könnu sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Tilgangur landsáætlunarinnar er skýr; að styrkja innviði á stöðum sem búa við álag af völdum ferðamennsku og fjármagna umbótaverkefni á landi sem stofnanir ríkisins bera ábyrgð á, t.d. á friðlýstum svæðum og í þjóðgörðum.  

Flest verkefni á Suðurlandi

Á næstu þremur árum er fyrirhugað að rúmlega þrír milljarðar króna renni til uppbyggingar innviða í gegnum landsáætlun – þar af næstum því helmingurinn á Suðurlandi. Víða á landinu var orðin uppsöfnuð þörf fyrir innviðauppbyggingu en óvíða meiri en á Suðurlandi.

Á árunum 2020-2022 er áætlað að tæplega 1,5 milljarður verði lagður í ýmiskonar umbótaverkefni á Suðurlandi með fjármagni frá landsáætlun. Sem dæmi má nefna áframhaldandi uppbyggingu innviða við Dyrhólaey, svo sem göngustíga, bílastæði, merkingar og öryggisgirðingar. Í Laka verður ráðist í bráðaaðgerðir til þess að sporna við gróður- og jarðvegsskemmdum. Í Skaftafelli á að ljúka við brýnar úrbætur í fráveitumálum, en þær eru þegar hafnar. Við Gullfoss hefur átt sér stað umfangsmikil uppbygging síðasta áratuginn; í fyrstu með styrkjum frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða en síðustu árin á vegum landsáætlunar um innviði. Ekki hefur verið hægt að fara í nauðsynlega uppbyggingu við Geysi með sama hraða og við Gullfoss og hefur staðurinn meðal annars lent á rauðum lista Umhverfisstofnunar vegna þessa, yfir svæði sem eiga á hættu að tapa verndargildi sínu. Í sumar stendur til að friðlýsa Geysissvæðið og þannig skapast frekari forsendur til að ráðast í umfangsmiklar umbætur á þessum fornfræga og mikilvæga stað.

Svona mætti lengi telja en á næstu þremur árum verður unnið að 37 verkefnum á Suðurlandi og eru þau hvergi fleiri á landinu. Það munar um minna í árferði sem þessu. Ekki einungis munu verkefni sem þessi sjá til þess að áfangastaðir á Íslandi verði betur búnir undir komur ferðmanna þegar þeim fjölgar á ný, heldur eru verkefnin líka atvinnuskapandi í heimabyggð á meðan hart er á dalnum.

Gefið enn frekar í með fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar

Með fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar á árinu 2020, sem ætlað er að auka opinbera fjárfestingu vegna kórónuveirunnar, verða framlög til uppbyggingar á friðlýstum svæðum aukin um rúmar 650 m.kr. Þetta er umfram þann milljarð sem til kemur af landsáætlun á árinu í ár. Stærsti hluti viðbótarfjármagnsins rennur til verkefna á Suðurlandi; t.d. til byggingar göngustíga, bílastæða og annarra innviða, svo sem við Jökulsárlón, Þingvelli og innan Friðlands að Fjallabaki. Þá fer hluti fjárins í uppbyggingu á aðstöðu og þjónustu fyrir ferðamenn.

Uppbygging til framtíðar

Þótt það gangi á ýmsu í þjóðfélaginu um þessar mundir verðum við að horfa til framtíðar í þessu sem öðru. Það er mikilvægt að tryggja sjálfbæra þróun í samspili ferðaþjónustu og íslenskrar náttúru. Það gerum við með því að vernda auðlindina sem er undirstaða atvinnugreinarinnar; náttúruna sjálfa.

Guðmundur Ingi,
umhverfisráðherra.