1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Verð syfjuð af því að lesa leiðinlegar bækur

Verð syfjuð af því að lesa leiðinlegar bækur

0
Verð syfjuð af því að lesa leiðinlegar bækur

Elín Gunnlaugsdóttir er fædd á Selfossi en uppalin í Biskupstungum. Hún nam tónsmíðar og tónlistarkennslu og starfar við það ásamt því að reka Bókakaffið á Selfossi. Hún bjó á námsárunum í Reykjavík og á Eyrarbakka en hefur búið á Selfossi síðustu tuttugu og fimm árin. Elín er gift Bjarna Harðarsyni, rithöfundi og bóksala  og eiga þau fjögur börn og fjögur barnabörn.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er búin að vera í bókaklúbbi til fjölda ára með nokkrum góðum konum hér á Selfossi og á næsta fundi er ætlunin að ræða Glæp við fæðingu eftir Trevor Noah. Þrátt fyrir að ég hafði heyrt mikið talað um bókina áður en ég hóf lesturinn hélt ég að hún væri skáldsaga. En bókin reyndist svo vera uppvaxtarsaga Suður-afríska og sjónvarpsmannsins og uppistandarans Trevors Noah. Þetta er mjög áhugaverð bók um aðskilnaðarstefnuna og þær breytingar sem verða í Suður-Afríku eftir afnám hennar.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ætli það séu ekki nótnabækur! En án gríns þá eru það ljóðabækur. Ég les mest nútímaljóð og á dágott safn af ljóðabókum. Mér finnst nóvellu formið líka mjög skemmtilegt og held til dæmis mikið upp á Sandárbókina, Suðurgluggann og Sorgarmarsinn eftir Gyrði Elíasson. Ljóðrænar bækur höfða meira til mín en mikil epík. Það er samt ekkert algilt í þessu. Bókin Stoner eftir bandaríska höfundinn John Williams er mjög epísk en hafði mikil áhrif á mig þegar ég las hana í fyrra. William Stoner er fátækur bóndasonur í Bandaríkjunum sem kemst til mennta og verður seinna háskólakennari. Hann lifir í ástlausu hjónabandi og nær ekkert mjög miklum frama innan háskólans. Galdur bókarinnar felst í næmi höfundarins fyrir persónunni, sem þrátt fyrir sitt fábreytilega og sumir myndu segja sorglega líf, deyr nokkuð hamingjusamur. Það sem heillaði mig við bókina er hvernig höfundi tekst að vekja samlíðun lesandans með þessum litlausa karakter. Sennilega höfða þó mest til mín bækur sem fá mig til að ferðast í huganum til annarra landa og heimsálfa til að hitta sögupersónur sem fá mig til að sjá heiminn á örlítið annan hátt.

Hvernig lestraruppeldi fékkstu?

Pabbi var meira í því að segja okkur sögur og kenna okkur vísur og kviðlinga. Mamma las svo fyrir okkur þýskar barnabækur. Af þeim bókum sem ég ólst upp við er Der Struwwel Peter eftir Heinrich Hoffmann mjög eftirminnileg en hún væri eflaust bönnuð börnum í dag. Uppeldisaðferðir í þeirri bók eru nokkuð öfgakenndar. Þegar ég fór sjálf að lesa las ég alls konar stelpubækur eins og Öddu bækurnar, Fimm bækurnar og Ævintýrabækurnar. Á unglingsárunum man ég vel eftir bókunum um Patrick eftir K. M. Peyton sem Silja Aðalsteinsdóttir þýddi og las í útvarpinu. Patrick þessi var mjög efnilegur píanóleikari en átti í talsverðum vandræðum með sjálfan sig. Ég hlustaði ýmist á lesturinn í útvarpinu eða las sjálf bækurnar um þennan músíkalska sjarmör.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég les oftast á kvöldin áður en ég fer að sofa og ef ég klára bók án þess að vera búin að finna mér nýja til að lesa þá líður mér dálítið illa. Mér finnst fátt betra á sunnudagsmorgnum en að liggja uppí rúmi með góða bók.

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund?

Ég held mest uppá ljóðskáldið Pablo Neruda frá Chile. Pablo Neruda hittir einhvern veginn alltaf naglann á höfuðið í sínum ljóðum. Ég lærði meira að segja spænsku til að geta lesið hann á frummálinu. Ég mæli með ljóðabókinni Bók spurninganna eftir hann. Á seinustu árum hef ég lesið nokkrar bækur eftir Kazuo Isiguro sem er breskur rithöfundur af japönskum ættum. Í bókum hans blandast austrið og vestrið saman á heillandi hátt. Smásögur kanadíska höfundarins Alice Munro eru líka feyki góðar. Þá er eiginmaður minn Bjarni Harðarson vitanlega líka einn af mínum uppáhaldshöfundum. Ég held sérstaklega uppá bókina Mörð sem er um Mörð Valgarðsson þar sem hann liggur banaleguna og fer yfir líf sitt. Þá mæli ég líka með bókinni Í Gullhreppum sem er um prestinn Þórð í Reykjadal sem uppi var á 18. öld og var nokkuð skrítin skrúfa.

Hefur bók rænt þig svefni?

Já margoft. En ég verð líka syfjuð af því að lesa leiðinlegar bækur.

En að lokum Elín, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Þegar ég var yngri dreymdi mig um verða rithöfundur. Þegar ég var unglingur og fram á fullorðinsár skrifaði ég ljóð sem birt voru í skólablöðum og nokkur þeirra náðu meira að segja að birtast í Lesbók Morgunblaðsins. Þegar ég fór í tónsmíðanám þá tóku tónsmíðarnar yfir og ég næ að túlka mína ljóðrænu þanka í gegnum þær. Ég held samt að ef ég myndi skrifa bók þá myndi ég reyna að hafa hana dálítið fyndna og absúrd. Jafnvel bók sem fólk yrði að lesa afturábak eða standandi á haus.