10.6 C
Selfoss

Frjáls félagasamtök eiga ekki að stjórna landinu

Vinsælast

Í lýðræðisríki er margt sem þarf að taka tillit til og það eiga allir rétt á því að segja sína skoðun bæði í ræðu og riti. Öll sjónarmið og skoðanir eiga rétt á því að heyrast og við þurfum ekki alltaf að vera sammála. Þegar taka þarf ákvarðanir hjá hinu opinbera eru það  lýðræðislega kosnir einstaklingar, sem hafa umboð frá fólkinu í landinu sem taka ákvörðunina og bera ábyrgðina á þeirri ákvörðun sem verður tekin. Það eru tvö stjórnvöld í landinu, ríkið og sveitarfélög, þau hafa hvort sitt hlutverkið og starfa náið saman.

Nú stendur fyrir dyrum að veikja sveitarstjórnarstigið, ef drög að frumvarpi umhverfisráðherra um stofnun þjóðgarðs á hálendinu nær fram að ganga. Í drögunum er gert ráð fyrir því að sveitarfélög eigi að mynda umdæmisráð, þar sem stórar og stefnumarkandi ákvarðanir verða teknar,eins og t.d. um skipulagsmál og innviðauppbyggingu svo fátt eitt sé nefnt.

Í frumvarpsdrögunum er t.d. gert ráð fyrir því að sveitarfélögin sjö í Árnes – og Rangárvallasýslum, sem eiga land að miðhálendinu,  eigi að skipa fimm einstaklinga  í níu manna stjórn. Það verða því tvö sveitarfélög sem ekki fá mann í stjórn. Hinir fjórir aðilarnir í umdæmisráði eiga frjáls félagasamtök að skipa eins og náttúruverndarsamtök, útivistarsamtök, bændasamtökin og aðili frá ferðaþjónustufyrirtækjum á svæðinu.

Í stjórnarskrá Íslands er kveðið á um að sveitarfélög eigi að ráða sínum málefnum sjálf. Þá kemur fram í skipulagslögum að sveitarfélög fari með skipulagsvaldið innan sinna sveitarfélagamarka. Með frumvarpsdrögum að stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er verið að gera lítið úr sveitarstjórnarstiginu og það er verið að fela frjálsum félagasamtökum ákveðið vald sem sveitarfélögin hafa haft. Sveitarstjórnir eru kosnar í lýðræðislegum kosningum á fjögurra ára fresti. Ef einstaklingar eða flokkar eru ekki að standa undir væntingum íbúanna, þá hafa íbúar vald til að gera breytingar í næstu kosningum.

Það er mín skoðun að það megi ekki undir neinum kringumstæðum  fela frjálsum félagasamtökum vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir, það getur ekki talist lýðræðislegt að frjáls félagasamtök geti fengið þetta mikil völd og það án þess að vera lýðræðislega kosin til þess og án umboðs frá íbúum viðkomandi sveitarfélaga. Viljum við td að frjáls félagasamtök eigi fulltrúa þegar verið að taka ávörðun um framtíð Reykjavíkurflugvallar og skipulag í kringum hann. Ég er viss um að kollegar mínir í Reykjavíkurborg eru ekki tilbúnir til þess.

Þeir aðilar sem eru lýðræðislega kosnir eiga að sjálfsögðu að leita til og fá umsögn frá frjálsum félagasamtökm áður en ákvarðanir eru teknar eftir því sem við á. Það gefur þeim sem eru lýðræðislega kosnir, ákveðið aðhald og faglegri niðurstöðu.

 

Ég skora á sveitarfélög um land allt að standa saman um að skipulagsvald sveitarfélaga verði ekki skert og þar með sveitarstjórnarstigið.  Við erum að tala um að meira en 30% af öllu landinu verði gert að einum þjóðgarði. Landshlutasamtök sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga þurfa líka að láta málið til sín taka, það er að mikið í húfi.

 

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar.

 

Nýjar fréttir