3 C
Selfoss

Tölum um ástina og afhendum Sparibollann

Vinsælast

Hið árlega málþing Bókabæjanna fer fram í Tryggvaskála 27. febrúar kl. 20. Að þessu sinni er þemað engu minna en sjálf ástin.

„Við ætlum að skoða ástina frá ýmsum hliðum, í bókmenntum og tónlist,“ segir Harpa Rún, formaður Bókabæjanna. Að vanda er fræðum og fyrirlestrum blandað við léttari skemmtun og miklu er tjaldað til í ár.

Ástin rædd við hundinn

„Fyrirlestrarnir hafa sjaldan verið eins fjölbreyttir. Jón Özur okkar hefur verið að ræða ástina í bókmenntum við hundinn sinn á kvöldgöngum og ætlar að segja okkur frá því. Svo kemur hún Rósa Vestfjörð sem rekur Ásútgáfuna, sem við þekkjum flest sem Rauðu ástarsöguútgáfuna og segir okkur frá því merkilega starfi. Síðan mun Hildur Ýr Ísberg íslenskukennari segja okkur aðeins frá ástinni í unglingabókum, þar sem hún er kannski allra best?“ segir Harpa Rún sem er afar spennt fyrir kvöldinu.

Ferðalok, Djöflaeyja og ljúfir tónar

Heldri borgarar á Selfossi hafa tekið virkan þátt í starfi Bókabæjanna frá upphafi og munu nú stíga á stokk og flytja okkur ástarjátningu allra tíma, kvæðið „Ferðalok“ eftir Jónas Hallgrímsson. Þá mun tónlistarkonan Myrra Rós ramma dagskrána inn. Einnig sýnir Leikfélag Selfoss brot úr „Djöflaeyjunni,“ sem frumsýnd verður þann 6. mars. „Ég er mögulega spenntust fyrir því, þetta er eitt af mínum uppáhalds verkum og ég hlakka mikið til að sjá hvaða tökum það verður tekið á Selfossi,“ segir Harpa Rún og brosir.

Ný bókmenntaverðlaun afhent í fyrsta skipti

Hápunktur málþingsins verður þó afhending Sparibollans, nýstofnaðra íslenskra bókmenntaverðlauna, sem veitt verða nú í fyrsta skipti. Mögulega eru þau hugarfóstur Hörpu Rúnar sem fékk þessa hugmynd í flóðinu. „Okkur langaði að verðlauna fallegustu ástarlýsinguna, til ofurlítlis mótvægis við alla glæpina og ljótleikann í bókmenntum, og í rauninni bara heiminum. Ég fékk þau Eyrúnu Lóu Eiríksdóttur og Sverri Norland með mér í lið og get hér með vitnað um að það tekur um það bil sólarhring að stofna bókmenntaverðlaun.“

Hægt er að senda inn tilnefningar um bestu lýsinguna fram til 22. febrúar nk. og hefur ekki staðið á lesendum að senda inn hugmyndir. „Við erum bara með árið 2019 undir, annað væri ógjörningur, en það er ljóst að mikið er af fallegum ástarjátningum,“ segir Harpa Rún og hvetur fólk um leið til þess að senda inn hugmyndir.

Verðlaunin eru ekki af verri endanum, rósóttur sparibolli á fæti. Það þarf ekki að spyrja hver vísunin sé – skál fyrir Guðrúnu frá Lundi.

Mætið meðan húsrúm leyfir

„Það er kannski klisjukennt að segja það, en mætið snemma, því það fyllist alltaf og við getum ekki endalaust bætt við sætum,“ segir Harpa Rún, en húsið opnar kl. 19:30. Þau Jón Özur hyggjast reyna að stjórna dagskránni, „en það fer gjarnan úr böndunum eins og verða vill þegar fólk skemmtir sér…og þegar ástin tekur völd!“ segir hún að lokum.

Frítt er inn á málþingið, kaffi og með því í boði Bókabæjanna en eins er barinn opinn fyrir þau sem vilja. Bókabæirnir vilja benda áhugasömum á Bókakaffi í Gerðubergi kvöldið áður, þar sem þær Ingunn Snædal og Þóra Hjörleifsdóttir ræða ástina við Guðrúnu Baldvinsdóttur bókmenntafræðing. Kjörin upphitun fyrir ástina á Selfossi.

 

Nýjar fréttir