7.3 C
Selfoss

Hálendisböðin í Þjórsárdal á tímamótum

Vinsælast

Um síðustu áramót urðu mikil tímamót í sögu Hálendisbaðanna þegar forsætisráðuneytið og Skeiða- og Gnúpverjahreppur gengu frá samningi við Rauðukamba ehf. um uppbyggingu á baðstað og hóteli Reykholti í Þjórsárdal. Þá lauk fjögurra ára undirbúningsferli sem innihélt meðal annars flókna skipulagsvinnu og ítarlega umhverfisskýrslu um verkefnið.

„Næstu skref verkefnisins verða stigin síðar á þessu ári þegar borað verður eftir heitu vatni við Reykholt, enda mikilvægt að tryggja vel vatnsbúskapinn við baðstaðinn. Að öðru leyti mun árið einkennast af hönnun bygginga en áætlað er að hefja verklegar framkvæmdir vorið 2021 og gert ráð fyrir að opnað baðstað og hótel í Reykholti veturinn 2023-2024, segir Magnús Orri Schram, framkvæmdastjóri Hálendisbaðanna, aðspurður um næstu skref í verkefninu.

Uppbygging í Hólaskógi

Samhliða verkefninu í Reykholti hefur fyrirtækið Rauðukambar einnig rekið gistiskálann í Hólaskógi, við afleggjarann að Háafossi. Fyrirtækið hefur lagt fram hugmyndir um að laga til núverandi skála og snyrta til umhverfis hann með það að markmiði að skapa áhugaverðan áfangastað fyrir hestaferðamenn, gönguhópa og aðra ferðalanga sem vilja sækja heim Þjórsárdalinn. „Um þessar mundir er unnið að samningamálum varðandi það verkefni og vonandi skýrast þau mál núna í vor og að í Hólaskógi verði komin heilsársstarfsemi næsta vetur,“ segir Magnús Orri.

Aðspurður um hvernig verkefninu sé tekið hjá heimamönnum segir Magnús Orri: „Við hjá Rauðukömbum höfum átt einstaklega gott samstarf við heimamenn um verkefnið í Reykholti, en við gerum okkur fyllilega grein fyrir ábyrgð okkar gagnvart náttúru Þjórsárdals og þeim áhrifum sem framkvæmdin hefur á samfélag í Skeiða – og Gnúpverjahreppi. Við höfum lagt mikla áherslu á vandaðan undirbúning og sjálfbærni allra framkvæmdanna og starfseminnar þegar hún hefst. Að baki eru tveir upplýsingafundir með heimamönnum og ráðgerum við að halda fleiri, til kynningar á verkefninu og framgangi þess.“

60-70 heilsársstörf

Ljóst er að uppbygging í Hólaskógi og Reykholti mun skapa mikla möguleika fyrir Skeiða- og Gnúpverjahrepp.  Reiknað er með 60-70 heilsársstörfum. „Við vonum að flest þeirra verði mönnuð heimamönnum eða Sunnlendingum, en einnig höfum við fundið fyrir miklum áhuga brottfluttra sem horfa til þess að flytja aftur heim. Þá er ljóst að baðstaðurinn kallar á íbúðarhúsnæði í Árnesi, og aukna eftirspurn eftir afþreyingu og gistingu á svæðinu, en allt skapar þetta áhugaverð tækifæri fyrir heimamenn. Þannig standa vonir okkar til að Hálendisböðin í Þjórsárdal geti virkað sem vítamínsprauta fyrir  fjölbreytt atvinnu- og mannlíf í Skeiða-og Gnúpverjahreppi þegar fram líða stundir,“ segir Magnús Orri að lokum.

 

Nýjar fréttir