8.9 C
Selfoss

Ráðhúsbraggablús

Vinsælast

Á síðasta fundi bæjarráðs Árborgar voru lögð fram svör við fyrirspurnum bæjarfulltrúa D-lista um kostnað við breytingar á bókasafni og Ráðhúsi, sem staðið hafa yfir frá því á miðju síðasta ári. Svörin voru ekki birt með fundargerð bæjarráðs á vefnum, en vonandi hefur verið bætt úr því nú. Í svörin vantar einnig upplýsingar um kostnað sem fallið hefur til á þessu ári, en reikningar fyrir janúar eru nú að tínast inn.

Ástæða þess að svörin voru ekki birt með fundargerðinni er kannski sú að ráðamenn vilja ekki að almenningur sjái hvernig fjármálastjórnin og stjórnsýslan í þessu litla máli hefur verið. Kostnaður fór langt fram úr áætlunum og virðist helst að það hafi verið lagt af stað í vegferð sem ekki var búið að hugsa til enda. Áætlanir voru gerðar eftirá, og dugði samt ekki til að ná utan um kostnaðinn. Sótt var um byggingarleyfi löngu eftir að framkvæmdir hófust. Val á hönnuðum var gert eftir stutt spjall sviðsstjóra við hönnuðinn, sem síðan var ráðinn að verkinu. Ekki var spjallað við neina aðra. Óljóst er hver tók ákvörðun um að ráðast í verkefnið. Eingöngu er getið um spjall sviðsstjóranna og ráðgjöf Haraldar Líndal. Sviðsstjórarnir hafa ekki heimild til að ráðast í verkefni sem ekki er fjármagnað. Því síður utanaðkomandi ráðgjafi – átti ekki líka ráðgjöfin að miða að því að spara? Stoppa lekann?

Það er ótrúlegt, en satt, að hönnunarkostnaður var um áramótin kominn í rúmlega 18 milljónir króna, með vsk, og sér ekki fyrir endann á því. Enn er eftir að fara í 3ju hæðina og það virðist hafa gleymst að gera ráð fyrir því að það þyrfti að uppfylla kröfur um brunahönnun verksins. Öll brunahólfun sem til staðar var í húsinu var eyðilögð og þarf því að hugsa það allt upp á nýtt og endurbyggja.

Útlit er fyrir að heildarverkið fari í a.m.k. 100 milljónir króna, og að hönnunarkostnaður muni nema um 20%. Svona stærðir eru óþekktar, nema í svokölluðum „braggamálum“. Athugið að það er ekki verið að hanna nýtt hús, það er einungis verið að breyta húsnæði, sem reyndar var líka breytt síðast þegar B- og S-listi voru við völd. Stærstur hluti hönnunarkostnaðar hefur verið greiddur fyrirtæki sem heitir Plan 21 ehf.  Gott að komast í svona feitan bita án verðkönnunar, eða án þess að öðrum sé gefinn kostur á að koma í spjall um hugmyndir.

Lagt var af stað í verkefnið með fjárheimild upp á 5 milljónir króna. Sú heimild dugði fram í maí. Þá var heldur gefið í og verklegar framkvæmdir hófust. Í september var loks gerður viðauki við fjárhagsáætlun að fjárhæð 39 milljónir króna, að verulegu leyti kostnaður sem þegar hafði fallið til, og að öllu leyti kostnaður sem þegar hafði verið stofnaði til með því að ráða verktaka til starfa. Í lok árs stóð verkið í 65,3 milljónum króna, framúrkeyrslan var þá komin í 21,3 milljónir, eða 48,4% af upphaflegri áætlun og viðauka, sem gerður var eftirá. Sé eingöngu miðað við fjárheimildina sem var til staðar þegar látið var vaða í verkið er framúrkeyrslan 1.200%. Geri aðrir betur.

Áætlað er að verkið eigi eftir að kosta 40 milljónir króna til viðbótar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta endar. Hefði kannski mátt nota ríflega 100 milljónir króna af almannafé í eitthvað annað? Þurfti virkilega að eyða svona stórum fjárhæðum í hönnun? Hefði mátt kaupa húsgögn sem kostuðu minna en 5 milljónir króna? Þarf að þenja stjórnsýsluna það mikið út að svona framkvæmdir séu nauðsynlegar? Hvernig má það vera að lagt sé af stað í 100 milljón króna verkefni með 5 milljóna eyðslufé í farteskinu? Hver tók eiginlega ákvörðun um að fara í þetta verk? Hvernig enda stóru málin, ef litlu málin fara svona?

Bæjarfulltrúar D-lista

Nýjar fréttir