10 C
Selfoss

Svaðilfarir Svals og Vals eru innprentaðar í mig

Vinsælast

Már Ingólfur Másson er sagnfræðingur og grunnskólakennari. Giftur Jónínu Ástu og saman eiga þau tvær dætur. Már hefur starfað við kennslu frá 2007 fyrst á Hellu en svo á Selfossi, bæði í FSu og Vallaskóla. Saga Selfossbæjar hefur verið honum hugleikin undanfarin ár og varðveisla hennar enda lengi staðið til að skrifa sögu bæjarins.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Er að lesa þrjár bækur Síðustu ástarjátninguna eftir Dag Hjartarson, Húðflúrarinn í Auschwitz eftir Heather Morris og svo er ég að byrja á Húsið okkar brennur sem er fjölskyldusaga Gretu Thunberg og Vertu ósýnilegur – flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Allar mjög áhugaverðar hver á sinn hátt. Síðasta ástarjátningin er mjög áhugaverð og stíllinn skemmtilega flæðandi. Sagan er fyndin, ljúf og smá sorg í henni. Efnistökin eru líka þannig að það er svo auðvelt að tengja sig við hana. Húsið okkar brennur er á náttborðinu og ég rétt að byrja að fletta henni en er mjög spenntur. Húðflúrarinn er svo átakanleg frásögn frá Auschwitz. Minnir mig að ákveðnu leyti á Mennirnir með bleika þríhyrninginn. Ótrúlegt að í miðri þessar ómennsku illsku skuli lífið hafa haldið áfram hjá fólki. Bókin segir sögu Lale sem lifði af vistina, kynntist ástinni og var tilbúinn að fórna öllu fyrir hana. Að ástin kvikni og lifi í þessu helvíti er ótrúlegt og það sem Lale lagði á sig með ólíkindum, skyldulestur fyrir alla. Vertu ósýnilegur er svo vinnutengd lesning en er virkilega áhugaverð og stendur vonandi undir væntingum.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Þegar ég þarf að slaka á les ég skandinavískar sakamálasögur. Til að kveikja á hausnum les ég um sögutengd málefni og kennslufræði. Það er bara svo gaman og gott að lesa að mér finnst í raun allt skemmtilegt. Nema Stjarna Strindbergs eftir Jan Wallentin, það er versta bók sem ég hef nokkurn tímann byrjað á og náð að klára. Frá hausti og fram í desember og svo janúar og að páskum er hausinn undirlagður af kennslu og þá kemur sér vel að slökkva á honum með einföldum krimmum eins og eftir Arnald Indriðason, Lars Kepler og því öllu saman. Ég blanda síðan þeim lestri saman við bækur og rit um kennslufræði. Var til dæmis að klára mjög skemmtilega bók sem heitir 20 time og fjallar um það að setja upp áhugasviðstengd verkefni í 20% af kennslutímanum. Þegar ég er í fríi frá vinnu þá get ég lesið hvað sem er.

Lastu bækur í bernsku?

Alla mina barnæsku las ég eins og ég fengi borgað fyrir það, bjó á Skólavöllunum og því ekki nema rétt svo að rölta út götuna til að fara á bókasafnið. Ég kunni utan að íslenska knattspyrnu, ævisögur íþróttamanna og Sval og Val. Var yfirleitt með 5 – 10 bækur í láni frá safninu auk þess sem ansi myndarlegt safn myndasagna var til heima frá eldri bræðrum mínum, Svalur og Valur, Tinni, Viggó viðutan og Gormur nánast komplet og þaut ég í gegnum þessar bækur aftur og aftur. Svaðilfarir þeirra Svals og Vals eru innprentaðar í mig og ef á reyndi gæti ég líklega sagt frá öllum bókunum í mjög löngu og ítarlegu máli. Annars man ég mjög vel eftir því að hafa stautað mig snemma í gegnum Selinn Snorra og sú bók gerði það að verkum að ég fann ekki fyrir neinni samkennd með Keikó.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Les alltaf fyrir svefninn og þegar ég hef dauðann tíma er rosalega gott að lesa eða jafnvel hlusta á hljóðbók, er að hlusta meðan ég skrifa. Ég hef aldrei dottið í að lesa bækur á snjalltækjum þó ég sé með þau í höndunum alla daga. Meðan skólinn er á fullu les ég í skorpum en markmið ársins er að lesa þrjátíu bækur.

Áttu þér einhver uppáhalds rithöfund?

Nei eiginlega ekki. Þegar ég var barn og unglingur voru það Svalur og Valur og þá sérstaklega Tom & Janry og svo Franquin sem heilluðu mig þá. Síðan tók ég langt og gott J.R.R. Tolkien tímabil. Ef ég ætti að svara þessari spurningu yrðu það þessir.

Hefur bók rænt þig svefni?

Stefán Máni hefur verið duglegur við það. Stundum hefur mig langað að hringja í hann og athuga hvort það væri í lagi með hann. Sérstaklega eftir Litlu Dauðana og Nautið. Stjarna Strindberg heldur líka ennþá fyrir mér vöku, hún er svo léleg. Svo er það stundum sem bækur eru það góðar að ekki er hægt að leggja þær frá sér og það er jákvætt.

En að lokum Már, hvernig bók myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Sögu Selfoss. Eða ævintýralega spennusögu um sagnfræðing sem kennir í grunnskóla á daginn og leysir sakamál á kvöldin með aðstoð snjalltækja. Sú bók yrði samt alveg svakalega léleg svo við skulum halda okkur við sögu Selfoss. Í hausnum á mér er svona 75% af henni tilbúin og efnistök eru mjög spennandi. Saga bæjarins er einstök á landsvísu að það er synd að hafa ekki skráð hana alla fyrr. Að svona stór bær hafi byggst upp án þess að treysta á fiskinn er stórmerkilegt. Þjónustukjarni inní miðju landi.

 

 

Nýjar fréttir