-1.6 C
Selfoss

Tómatsúpa, piparkökuskyrkaka og söltuð karamellusósa

Vinsælast

Ég þakka Fanneyju, vinkonu minni innilega fyrir skemmtilega áskorun sem ég tek fagnandi. Ég er meðal áhugamanneskja um eldamennsku en flestur matur þykir mér góður. Ég er mikið fyrir hinar og þessar súpur og finnst gaman að gera þær frá grunni og ætla því að deila með ykkur tómatsúpu sem er bæði góð og einföld, uppskriftin er af ljufmeti.com.

 

Tómatsúpa

 

Hráefni:

⅓ bolli ólívuolía

4 stórar gulrætur, afhýddar og skornar í teninga

1 stór laukur, sneiddur

1 msk. þurrkuð basilika

3 dósir heilir tómatar

1 lítri vatn

2 kjúklingateningar

½ lítri rjómi

salt og pipar

 

Aðferð:

Hitið ólívuolíuna yfir miðlungshita í rúmgóðum potti. Setjið gulrætur og lauk í pottinn og eldið þar til byrjar að mýkjast, um 10 mínútur, bætið þá basiliku saman við og eldið þar til grænmetið er orðið alveg mjúkt, eða um 5 mínútur til viðbótar. Bætið tómatdósunum, vatni og kjúklingateningum í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur, eða upp í 45 mínútur ef þú hefur tíma. Setjið súpuna því næst í matvinnsluvél eða setjið töfrasprota í pottinn og maukið súpuna. Bætið rjómanum saman við og hitið aftur. Smakkið til með salti og pipar.

 

Einnig ætla ég að deila með ykkur frábærri uppskrift að skyrköku frá Evu Laufeyju vinkonu minni sem er afar einföld og hættulega bragðgóð.

 

Piparkökuskyrkaka með saltaðri karamellusósu

 

Hráefni:

400 g piparkökur

100 g smjör, brætt

500 g vanilluskyr

400 ml rjómi, þeyttur

2 msk. flórsykur

1 vanillustöng (ég notaði 1 tsk. vanilludropa)

 

Aðferð:

Bræðið smjör í potti og setjið piparkökurnar í matvinnsluvél og myljið fínt, þið getið líka notað kökukefli í verkið.

Hellið smjörinu saman við piparkökublönduna og blandið vel saman.

Hellið blöndunni í kökumót og þrýstið blöndunni í formið og upp með köntunum á forminu.

Kælið á meðan þið útbúið fyllinguna.

Þeytið rjóma, blandið skyrinu varlega saman við og sigtið flórsykur út í.

Skerið vanillustöng í tvennt eftir endilöngu og skafið fræin innan úr henni, bætið þeim út í skyrfyllinguna og hrærið öllu vel saman.

Hellið fyllingunni ofan á piparkökubotninn og kælið, best er að kæla kökuna í 3-4 klst. eða yfir nótt.

 

Söltuð karamellusósa

 

Hráefni:

150 g sykur

4 msk. smjör

1 dl rjómi

sjávarsalt á hnífsoddi

 

Aðferð:

Bræðið sykur á pönnu við vægan hita, best að hafa alls ekki háan hita og fara hægt af stað.

Takið pönnuna af hellunni þegar sykurinn er allur bráðinn og bætið smjörinu saman við í nokkrum skömmtum.

Hellið rjómanum út í karamelluna og hrærið þar til karamellan er orðin þykk og fín.

Í lokin bætið þið saltinu saman við.

Leyfið sósunni að kólna alveg áður en þið hellið henni yfir skyrkökuna.

 

Dreifið saltaðri karamellusósu yfir kökuna áður en þið berið hana fram og njótið vel.

 

Það sem eflaust ekki allir vita er að nú hafa verið fimm matgæðingar í röð úr sama vinkonuhópnum en aðeins einn Rangæingur stendur eftir, sú sleppur heldur betur ekki en það er sjálf knattspyrnuhetjan, Hrafnhildur Hauksdóttir.

Nýjar fréttir