3.4 C
Selfoss

Tími breytinga

Vinsælast

Um leið og ég óska öllum gleðilegs árs og þakka kærlega fyrir þau liðnu þá staldra ég við í janúarbyrjun, lít yfir nýliðið ár og þá vakna vonir um árið sem framundan er.

Árið 2020 verður ár gagnsæis og aðdraganda umfangsmikilla kerfisbreytinga sem eru löngu timabærar. Stjórnmálamenn svara loksins ákalli almennings um breytingar á auðlindaákvæðum stjórnarskrár, auðlindastjórnun þjóðarinnar og þá sérstaklega löngu tímabærum breytingum á fiskveiðistjórnun þjóðarinnar.

Það er augljóst að úthlutun aflaheimilda verður að breytast. Aflaheimildir eiga að vera tímabundnar, aðgengilegar fleirum og greitt fullt verð fyrir þær til eigandans. Við erum eigandinn, almenningur í þessu landi. Nú eru aflaheimildir varanlegar og greiddir smápeningar fyrir, farið með þær eins og hverja aðra fasteign, veðsettar og ganga í erfðir. Enda hefur erfðafjárskattur verið lækkaður svo handhöfum kvótans reynist auðveldara að koma auðlind þjóðarinnar til eigin erfingja. Þetta verður að lagfæra og þjóðin á heimtingu á að ráðstafa fiskveiðiheimildum sínum í stað fámennrar stórútgerðastéttar sem sölsað hefur undir sig verðmætustu auðlind þjóðarinnar. Allur fiskur á að fara á markað svo verðmyndun á fiski sé gagnsæ og trúverðug. Það myndi einnig rjúfa virðiskeðju fákeppninnar, þennan möguleika útgerðarvinnsla til að flytja út gróðann af sjávarútveginum og taka hann út erlendis. Þann möguleika þarf að útiloka til að meðferð auðlindarinnar sé hafin yfir allan vafa og arður af henni skili sér til sem flestra byggða.

Það er ekki skrýtið að landsmenn séu tortryggnir þegar fáir útvaldir maka krókinn á kostnað ríkisins, fjármála- og skattakerfið er notað til undanskota í skattaskjól án þess að nokkuð sé að gert, á sama tíma og öryrkjar og eldri borgarar lepja dauðann úr skel og heilbrigðis- samgöngu- og menntakerfið svelt. Og endalaust eru haldnar ræður um ríkidæmi Íslendinga, meðaltalsvelmegun og heppni okkar í samanburði við aðrar þjóðir. Augun virðast lokuð fyrir þeirri skyldu yfirvalda að sjá öllum, ekki sumum, öllum fyrir grunnframfærslu og þjónustu.

Þó gert sé endalaust grín að löngum umræðum um Orkupakka III, þá kristallaðist óánægja þjóðarinnar og þó aðallega óöryggi með ráðstöfun og eignarhald á orkuauðlindum þjóðarinnar í þeim umræðum. Hvort sem orkupakkinn sjálfur snerist um eignarhald á auðlind eða ekki, þá skiptir það í sjálfu sér ekki höfuðmáli. Umræðan sjálf sýndi fram á nauðsyn þjóðarsáttar í stjórnarskrá um fyrirkomulag auðlindamála. Orkumál þurfa að vera hafin yfir alla tortryggni.

Eina leiðin til að löggjafinn og framkvæmdavaldið geti unnið sér inn traust almennings, er að tryggja að öll gögn og upplýsingar séu á reiðum höndum og að hagsmunatengsl séu alltaf túlkuð almenningi í vil, ekki viðkomandi einstaklingi. Allar embættisfærslur verða um leið betur rökstuddar, rekjanlegar og hafnar yfir grun um misbeitingu valds og geðþóttaákvarðanir. Gagnsæið er ennfremur ein öflugasta leiðin til að koma í veg fyrir spillingu.

Til að lýðræðið virki þurfum við að hafa áreiðanlegar upplýsingar og gögn á reiðum höndum. Traust kjósenda byggir á að öll stjórnsýsla sé hafin yfir allan vafa. Landsréttarmálið, Samherjamálið og fleiri mál sem skekið hafa samfélagið á liðnu ári sýna svo ekki verður um villst að gagnsæi vinnur gegn spilllingu, stuðlar að upplýstri umræðu, vekur öryggi almennings um að verið sé að vinna í okkar þágu og að vönduð ákvarðanataka sé í hávegum höfð. Leyndarhyggjan þýðir ekki endilega að verið sé að brjóta lög -en vekur tortryggni sem þarf að fyrirbyggja.

Ég held að kjósendur séu að vakna til vitundar um þessi mál og komi okkur Pírötum til hjálpar með að hrinda þessum nauðsynlegu umbótum í framkvæmd með nýrri stjórnarskrá, nýju verklagi og nýjum kerfum tengdum atvinnuvegum og velferð. Það er ekki nóg að stagbæta úrelt kerfi erfðaveldisins. Hefjum stjórnmálin yfir tortryggni, einblínum á velsældarhagkerfi fyrir alla, í stað meðaltalsvelmegunar peningahagkerfis sem vinnur að hag örfárra. Búum til samfélag sem við getum öll verið stolt af.

Álfheiður Eymarsdóttir

Varaþingmaður Pírata í Suðurkjördæmi

 

 

 

 

Random Image

Nýjar fréttir