5 C
Selfoss

Allt það sem er æskilegt fyrir velferð mannsins

Vinsælast

Abraham Lincoln er einn merkasti forseti sem Bandaríkjamenn hafa átt og meta margir hann fremstan allra forseta. Hann sagði eitt sinn; „Allt það sem æskilegt er fyrir velferð mannsins, bæði í þessu lífi og öðru, má finna í Biblíunni.”

Fyrir skömmu var mér boðið á aðventukvöld Gídeonfélagsins.  Þar var saman komin góður hópur fólks sem á það sameiginlegt að vilja stuðla að því að sem flestir eignist Guðs orð. Mér er það minnistætt þegar ég var ungur að árum og fékk Nýja testamentið að gjöf frá Gídeonfélaginu. Mér þótti bókin ákaflega falleg og þorði varla að fletta henni í fyrstu af ótta við a hún yrði þá fljótt slitin.

Gídeonfélagið var stofnað 1899 í Bandaríkjunum af þremur einstaklingum. Félagsskapurinn breiddist hægt og rólega út og var Ísland þriðja landið þar sem Gídeonfélag var stofnað. Það er í sjálfu sér svolítið merkilegt í ljósi þess að starfsemi þess er í dag nánast í öllum löndum heims. Meðlimir á heimsvísu eru um 270 þúsund og þeir færa öllum sem vilja Nýja testamentið og Biblíuna að gjöf á yfir 100 tungumálum. Félagið hefur gefið rúmlega tvo milljarða eintaka af Biblíunni frá stofnun. Á Íslandi gaf félagið fyrstu Biblíuna á hótelherbergi árið 1949 en það var á Hótel Borg. Árið 1954 hóf félagið að fara í grunnskólana og gefa 10 ára börnum Nýja-testamentið.

Íslenskt samfélag og kristnar rætur

Þeirri vegferð lauk því miður árið 2011 þegar kristin trú var sett í skammarkrókinn af Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Þegar borgin bannaði að dreifa í grunnskólum boðandi efni eins og það var orðað. Þremur árum áður eða árið 2008 bannaði þáverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins kristnifræðikennslu í skólum landsins.

Þessar ákvarðanir voru ekki heillavænlegar að mínum dómi. Það var óskynsamleg ákvörðun að þessi bók bókanna sem svo ríkulega hefur mótað íslenska menningu og íslenskan trúararf skuli þannig gerð að hornreku í íslensku skólakerfi. Uppeldishlutverk skólans er mikilvægt, ekki síst siðgæðisuppeldi. Skólum er ætlað að miðla slíkum gildum og í íslensku samfélagi eiga þessi gildi sér kristnar rætur. Taka á tillit til þess að kristin trú hefur verið ráðandi í mótun menningar okkar og samfélags.

Nú þegar styttist til jóla spyr maður sig að því hvenær verði farið að fetta fingur út í helgidagahald. Verður það jafn sjálfsagt að við fáum frí á kristnum helgidögum og verið hefur? Segja má að hér á landi hafi gætt tilhneigingar til ákveðinnar afkristnunar síðustu árin. Þessari öfugþróun hefur verið stjórnað af háværum minnihluta. Hér þarf að snúa við blaðinu.

Bersýnilegt er að kirkjulegt starf hefur mjög færst í aukanna á aðventunni í íslenskum söfnuðum hin síðari ár. Mikið framboð er af tónleikum og öðru efni sem laðar fólk að kirkjunni. Á þessum árstíma erum við minnt á langa samleið trúar og lista, ekki síst trúar og tónlistar og er það ánægjulegt.

Mikilvægi kyrrðarinnar í aðdraganda jóla

Boðberar kristninnar hafa á öllum tímum bent á mikilvægi kyrrðarinnar, mikilvægi þess að draga sig um stund í hlé frá áreiti umhverfisins. Margir sakna kyrrðar og jafnvel þagnar á þessum tíma frammi fyrir öllum þeim hávaða sem umlykur fólk í flóði auglýsinga fyrir jólahátíðina. Við eigum ekki að vanmeta mikilvægi kyrrðarinnar í aðdraganda jóla.

Hugleiðum vel í hverju jólaundirbúningur okkar ætti helst að vera fólginn. Upplagt er nú á aðventunni að hugleiða gildi hinnar kristnu trúar, hver sé boðskapur jólanna og hver sé kjarni hinnar kristnu trúar og kristins siðar, sem hefur fylgt þjóðinn í meira en þúsund ár.

“Allt það sem er æskilegt fyrir velferð mannsins.”

Gleðileg jól.

 

Birgir Þórarinsson þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir