8.9 C
Selfoss

Amerískur prófessor hugfanginn af Njálureflinum

Vinsælast

Hefur komið til Íslands fjórum sinnum sérstaklega til að sauma á refilinn.

 

Avedan Raggis er amerískurprófessor á fertugsaldri sem hefur tekið einstöku ástfóstri við Njálssögu og þá um leið Njálurefilinn á Hvolsvelli. Hún hefur nú komið fjórum sinnum sérstaklega til Íslands aðeins til að sauma í refilinn. Fyrsta ferðin hennar var árið 2016 en þá kom hún til landsins ásamt föður sínum og ferðaðist um Vestfirði og Suðurland. Hún kom við á Sögusetrinu og hitti Sigurð Hróarsson sem þá rak setrið. Þau áttu gott spjall saman um Njálssögu og í lok heimsóknarinnar sýndi Siggi henni refilinn. Og þá varð ekki aftur snúið, Avedan heillaðist af reflinum, enda mikil handavinnukona. Hún settist við sauma og hugur hennar hefur dvalið við refilinn síðan og leitt til fjögurra annarra ferða til Íslands, aðeins til að sauma eins og áður segir.

Avedan er menntuð í klassískum fræðum, sögu, bókmenntum og tungumálum. Hún er prófessor við háskólann í Colorado í Norrænum fræðum og kennir m.a. áfanga í íslenskum fornbókmenntum sem hún segir að sé afar vinsæll. Allir nemar skólans, óháð deildum þurfa að taka áfanga í klassískum fræðum og margir vilja læra hjá henni um Njálu og allt sem henni tilheyrir. Enda hægt að finna marga fleti á sögunni; lögfræði, trúmál, fjölskyldudrama og margt fleira. Sagan höfðar því til margra og ólíkra fræðasviða. Avedan nýtir sér myndir úr reflinum í kennslunni og segist fræða nemendur sína um refilinn um leið og hún kennir bókmenntirnar.

En innt um hannyrðaáhuga segist Avedan vera mikil handavinnukona. Hún er í félagsskap í Colorado sem einbeitir sér að fullvinnslu ullar, spuna, vefnaði og fleiru. Hún segir kímin að því miður geti ekki hún verið með kind í íbúðinni sinn, en hún er með loðkanínu sem hún snoðar reglulega og spinnur garn úr ullinni sem hún notar síðan með ýmsum hætti.

Eins og áður segir hefur Avedan komið fjórum sinnum sérstaklega til að sauma í refilinn, einu sinni á ári frá árinu 2016. Hún lætur 7 tíma flug ekki aftra sér frá ferðalaginu, en hún getur flogið beint frá Colorado til Íslands. Avedan nýtir gjarnan frídagana í kringum Þakkargjörðarhátíðina til að koma hingað. Þá gistir hún í nágrenni við Refilstofuna og saumar daglangt. Hún hefur mikla hæfileika á hannyrðasviðinu eins og glöggt má sjá handverki hennar. En hún lætur sér ekki nægja að sauma aðeins í refilinn. Hún hefur einnig keypt handavinnupakka með myndum úr reflinum sem hún saumar á milli Íslandsferðanna.

Þessi ferð Avedu til Íslands verður sú síðasta sem snúast mun um refilsaum því nú sér fyrir endann á reflinum. Verið er að sauma í lokametrana og á næsta ári verður verkinu lokið. Því mun næsta ferð Avendan verða til að líta söguna alla á refli. Það finnst henni gríðarlega merkilegt og spennandi. Hún vonast til þess að aðstaða og umbúnaður um refilinn verði þessu mikla listaverki til sóma.

Nýjar fréttir