1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Mikilvægi bólusetninga gegn kíghósta fyrir barnshafandi konur.

Mikilvægi bólusetninga gegn kíghósta fyrir barnshafandi konur.

0
Mikilvægi bólusetninga gegn kíghósta fyrir barnshafandi konur.

Undanfarin ár hefur kíghósti verið að stinga sér niður með reglulegu millibili þrátt fyrir að flestir fái bólusetningu gegn honum sem börn og unglingar. Flestir sem greinast með kíghósta eru börn undir 6 mánaða aldri og rúmlega helmingur þeirra undir 3 mánaða aldri. Svona ung börn ráða mjög illa við svo illvígan hósta sem kíghóstinn er og hafa nokkur þeirra orðið mjög alvarlega veik og þurft á gjörgæslu og öndunaraðstoð að halda.

Síðasta almenna bólusetningin sem gefin er við kíghósta er við 14 ára aldur – þ.e. í 9. Bekk. Bóluefnið veitir að jafnaði 5 til 10 ára vörn og því geta flestir fullorðnir smitast af kíghósta og borið sýkinguna til ungbarna sem ekki hafa verið bólusett.

Sé verðandi móðir bólusett á síðari hluta meðgöngu myndar hún verndandi mótefni sem fylgjan flytur til barnins. Barnið er þannig varið frá fæðingu og fram til u.þ.b. 6 mánaða aldurs þegar það hefur myndað sín eigin mótefni – að því tilskyldu að það fái hefðbundnar ungbarnabólusetningar.

Sóttvarnalæknir hefur gefið út tilmæli um að öllum barnshafandi konum sé boðin bólusetning gegn kíghósta við 28 vikna meðgöngu. Þar sem mótefnasvarið er mjög skammlíft þá er mælt með að bólusetja konur á hverri meðgöngu, jafnvel þó skammt sé á milli meðgangna.

Gefið er bóluefnið Boostrix sem ver gegn kíghósta, barnaveiki og stífkrampa. Góð reynsla er komin á þetta fyrirkomulag í Bretlandi og ekki verið sýnt fram á skaðsemi af slíkri bólusetningu.

Ljósmæður í meðgönguvernd sjá um þessar bólusetningar.

 

f.h Heilbrigðisstofnun Suðurlands

 

Dagný Zoega, ljósmóðir á HSU