4.3 C
Selfoss

Fjölnota íþróttahús á Selfossvelli

Vinsælast

Tómas Ellert Tómasson

Á 16. Fundi bæjarstjórnar í Svf. Árborg þann 12. desember 2018 var fjárfestingaáætlun ársins 2019 og þriggja ára áætlun til ársins 2022 samþykkt. Á meðal verkefna í fjárfestingaáætluninni var bygging fyrsta áfanga fjölnota íþróttahúss á Selfossvelli.

Lauslegt yfirlit yfir verkið

Verkefnið felur í sér byggingu á fjölnota íþróttahúsi á íþróttasvæði UMFS á Selfossi. Staðsetning húss er sunnan núverandi gervigrassvallar á íþróttavallarsvæði. Heildarstærð hússins með anddyri og stoðrýmum er 6.376m2. Stærð íþróttasalar er 77x80m með 16,7m lofthæð og möguleika á útdraganlegum stúkum fyrir allt að 300 manns.

Húsið er flokkað sem hálfupphitað hús eða 10-18°C að undanskildum fylgirýmum við hús sem eru fulleinangruð fyrir upphitað hús. Áætlaður mannfjöldi í húsi er 350 manns við æfingar að jafnaði og allt að 1500-3000 manns á sérstökum viðburðum. Aðkoma og aðstaða vallarstarfsmanna að húsi er bæði á norður- og suðurhlið, sem og snyrtingar, ræsting og sjúkraaðstaða.

Gólf á frjálsíþróttasvæði og göngu- og hlaupabrautum umhverfis gervigrasvöll verða klædd með tartan og gervigras mun verða á knattspyrnuvellinum.

Markmið verkefnis

Meginmarkmið með framkvæmdinni er að bæta æfingaaðstöðu ungmennafélagsins og ekki síður að byggja hagkvæmt og vel útfært íþróttamannvirki þar sem lögð er sérstök áhersla á eftirfarandi:

  • Æfingaaðstöðu fyrir knattspyrnu með gervigrasi sem uppfyllir FIFA kröfur
  • Innanhússaðstaða fyrir frjálsar íþróttir sem uppfyllir allar kröfur til æfingaaðstöðu félagsins
  • Göngubraut/skokkhringur sem nýtist vel fyrir eldri borgara, skokkhópa og hinn almenna íbúa sveitarfélagsins
  • Íþróttamiðstöð fyrir fólk á öllum aldri sem tengir saman kynslóðir bæjarins
  • Stækkanlegt hús. Möguleiki verður á að byggja við norðurgafl hússins í næsta áfanga og þannig stækka gervigrasvöllinn upp í 11 manna keppnisvöll sem tengist framtíðaruppbyggingu í norðri
  • Aðlaga húsið að umhverfi sínu
  • Húsið þjónusti hinar ýmsu bæjarhátíðir, tónleika- og sýningarhald og mót yngri flokka sem haldin eru á vegum ungmennafélagsins.
  • Húsið sé byggt samkvæmt hugmyndafræði algildrar hönnunar, hönnun fyrir alla/aðgengi fyrir alla. Í því felst að hanna góðar lausnir með jafnrétti og vellíðan alls fólks í fyrirrúmi.
  • Hljóðvist, lýsing, loftgæði og upphitun sé eins og best gerist
  • Hagkvæmt mannvirki í viðhaldi og rekstri

 

 

Verk-, kostnaðar- og greiðsluáætlun
Skóflustunga að fjölnota íþróttahúsinu var tekin þann 8. nóvember sl. og eru lok framkvæmdatíma samkvæmt verksamningi þann 1. ágúst 2021.

Virðisaukaskattur fæst til baka af framkvæmdinni og því er kostnaður við verkið eftirfarandi, eftir að tilboð í verkframkvæmd hafa verið yfirfarin og gerð kostnaðaráætlunar liggur fyrir við tvo síðustu liði framkvæmdarinnar:

 

Kostnaður (mkr.)
Hönnun – útboðsgerð 46,6
Verkefnisstjórn – áætlanagerð 4,4
Byggingarstjórn og eftirlit 24,2
Jarðvinna 98,9
Húsbygging 895,7
Innanhússfrágangur – Gervigras, tartan ofl.. 72,4
Laus búnaður (mörk, dýnur ofl..) 6,5
Samtals 1.148,7

 

 

Greiðslufyrirkomulag framkvæmdarinnar er á þann veg að verktaki fær jafna fasta upphæð greidda í hverjum mánuði eftir að hann hefur verkið. Á framkvæmdatíma og fram yfir öryggisúttekt og afhendingu byggingarinnar kemur 86% af samningsupphæðinni til greiðslu. Ári eftir afhendingu og eftir að lokaúttekt hefur farið fram koma 14% samningsupphæðar til greiðslu. Með slíku greiðslufyrirkomulagi dreifast greiðslur vegna byggingarinnar yfir fjögur ár, frá 2019 til 2022.

Framkvæmdin er undir 20% viðmiði sveitarstjórnarlaga

Áður en bæjarstjórn tekur ákvörðun um framkvæmd sem nemur hærri fjárhæð en 20% af skatttekjum sveitarfélagsins yfirstandandi reikningsár er henni skylt samkvæmt 66. gr. sveitarstjórnarlaga að gera sérstakt mat á áhrifum hennar á fjárhag sveitarfélagsins.
Áætlaðar skatttekjur Svf. Árborgar vegna ársins 2019 eru 7.708 mkr.. Fjárfestingin er um 15% af skatttekjum vegna ársins 2019 og því er bæjarstjórn Svf. Árborgar ekki skylt að láta gera sérstaka úttekt á áhrifum fjárfestingarinnar á fjárhag sveitarfélagsins.

Mynd: Tómas Ellert.

Tómas Ellert Tómasson bæjarfulltrúi M-lista í Svf. Árborg og formaður Eigna- og veitunefndar Svf. Árborgar.

Nýjar fréttir