1.7 C
Selfoss

Árleg fjáröflun Sjúkrahússjóðs Sambands sunnlenskra kvenna

Vinsælast

Sala á Kærleiksenglum og kortum. „Kærleikur gefur”

Samband sunnlenskra kvenna SSK eru samtök 25 kvenfélaga í Árnes- og Rangárvallasýslu. Sjúkrahússjóður SSK var stofnaður árið 1952 og síðan þá hafa  kvenfélagskonurnar aflað fjár til sjóðsins. Honum er í dag ætlað að styrkja tækjakaup til HSU, bæði sjúkrahússins og heilsugæslustöðva á sambandssvæðinu. Fyrr á árum var aðalfjáröflunarleiðin sala á jólakortum en frá árinu 2014 hefur fjáröflunarnefnd SSK fengið sunnlenskar listakonur til liðs við sig, sem hafa teiknað listaverk fyrir jólakort og bæði hannað og framleitt kærleiksengla. Nú hefur kærleiksengill ársins 2020 litið dagsins ljós. Hönnuður og framleiðandi hans er glerlistakonan Eva Ruth Gísladóttir hjá Gleri og gjöfum á Selfossi. Yfirskrift hans er „Kærleikur gefur”.

Kærleiksengillinn er framleiddur í takmörkuðu upplagi. Hann er bæði falleg og gildishlaðin gjöf sem hentar vel til tækifærisgjafa við ýmis tilefni. Þetta er sjötta árið sem kærleiksenglar eru boðnir til sölu fyrir jólin og þykja mörgum þeir hafa ákveðið söfnunargildi.

Jólakort ársins prýðir  gullfalleg mynd af íslenskum hundi „Geisli” og er hún eftir kvenfélagskonuna Gunnhildi Þórunni Jónsdóttur Kvf. Bergþóru í Vestur Landeyjum. Kortin eru framleidd bæði með og án texta og henta því einnig sem tækifæriskort.

Kærleiksenglarnir og kortin eru nú komin í sölu hjá kvenfélögunum á sambandssvæðinu.  Jafnframt eru bæði englar og kort til sölu í móttöku HSU á Selfossi og einnig hjá mörgum heilsugæslustöðvum. Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur í Sjúkrahússjóð SSK.

Það er von okkar að Sunnlendingar og aðrir velunnarar hugsi hlýlega til Kvenfélaganna, og styrki heilbrigðisþjónustu í heimabyggð með kaupum á kærleiksenglum og kortum. Fyrirtæki og stofnanir sem hafa áhuga á að styðja við þetta mikilvæga verkefni geta haft samband við kvenfélögin á sínu svæði, formann SSK, í netfangið formadurssk@gmail.com eða formann fjáröflunarnefndar í netfangið bryndis28@gmail.com

Stjórn SSK

 

 

Nýjar fréttir