2.3 C
Selfoss

Á hvaða vegferð er meirihlutinn í Árborg?

Vinsælast

Fyrir rúmu ári síðan rituðu bæjarfulltrúar D-lista grein sem birtist í Dagskránni og hafði yfirskriftina „Hvað er að frétta?“. Skrifin virtust koma illa við bæjarstjórann, sem er þó ekki kjörinn fulltrúi, heldur ráðinn starfsmaður, og hefur hann síðan í tvígang ritað greinar þar sem hnýtt er í fulltrúa D-lista. Meðal annars hefur hann haldið því fram að við höfum sofið á verðinum hvað varðar uppbyggingu í skólamálum. Þetta er hreinasta fjarstæða og má senda þau skrif beint til föðurhúsanna. Rétt er að minna aðeins á það sem framkvæmt var á þessu sviði á meðan D-listi var í meirihluta:

  1. Ný viðbygging tekin í notkun við Sunnulækjarskóla 2016.
  2. Ný viðbygging tekin í notkun við Sunnulækjarskóla 2018.
  3. Innigarðar í Vallaskóla gerðir að kennslurými og innra skipulagi breytt auk mikilla endurbóta á vesturenda hússins. Settar þrjár lausar kennslustofur með tengibyggingu við skólann. 2017-2018.
  4. Byggt við Sundhöll Selfoss og kennsluaðstaða fyrir sund þar með bætt. 2015.
  5. Hönnuð viðbygging við leikskólann Álfheima og boðin út 2018, sem skapa átti ný rými á 6 deilda leikskóla og svigrúm til að fjarlægja óviðunandi eldra bráðabirgðahúsnæði.  Núverandi meirihluti ákvað að hafna öllum tilboðum og hætta við verkefnið. Í heilt ár gerðist ekki neitt, nema íbúum fjölgaði og biðlistar lengdust. Svo fór að sumir þeirra sem ekki fengu leikskólapláss fluttu burt.
  6. Orkuöflun, borað var eftir heitu vatni , og aflað meiri réttindum lands fyrir örkuöflunn á heitu vatni í landi Stór Ármóts og í  landi Odgeirshóla er á lokametrunum.
  7. Borunn eftir köldu vatni.
  8. Farið var í endurnýjun fráveitu og lagna ásamt gatna ,Kirkjuvegi og Tryggvagötu.
  9. Endurnýjun gangstétta á Eyrarbakka og Stokkseyri og lokið við lagningu Fjörustígs milli Stokkseyrar og Eyrarbakka. Einnig var átak gert í viðhaldi og endurnýjun á skólahúsnæðum þessara bæja.
  10. Farið var í samstarf við Vegagerðina um gerð göngu og hjólastígs meðfram Eyrarbakkavegi.

Allt eru þetta verkefni sem teljast til grunnþjónustu við íbúa Árborgar.

Öll orka meirihlutans beinist að því að byggja hálft knatthús fyrir nærri því 2 milljarða króna. Í Hafnarfirði var verið að byggja heilt knatthús fyrir rétt rúmar 800 milljónir  og í Mosfellsbæ hálft hús fyrir um rétt rúmar 600 milljónir, sem meirihluti D-lista sá að var innan marka og getu sveitarfélagssins og hófst handa við undirbúning í þá veru.

Á meðan þessu vindur fram hér situr uppbygging fyrir lögboðna þjónustu á hakanum.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum þarf álit óháðs aðila ef einstök framkvæmd kostar meira en 20% af skattfé sveitarfélags á yfirstandandi reikningsári. Það lítur út fyrir að þau gögn sem óháðum aðila í þessu tilviki voru fengin hafi ekki gefið rétta mynd af kostnaði, en þar var tilgreind áætlun fyrir byggingu knatthúss upp á 1,187 milljarð króna, og ekkert fjallað um rekstrarkostnað hússins. Nú þegar er komið í ljós að þessar tölur standast engan veginn, en svona kemur dæmið til með að líta út í raun:

Tilboð í jarðvinnu                         122 millj. kr.

Tilboð í byggingu húss                 1.110 millj.kr.

Áætlað hönnun og eftirlit           63 millj.kr.

Gervigras, hlaupabraut og tæki 300 millj.kr.

Endanleg hönnun, eftirlit o.fl.    100 millj.kr

Ófyrirséð og aukaverk ca 6%      100 millj.kr

Samtals gerir þetta um               1.800 millj. kr.

Eða 23% af skatttekjum sveitarfélagsins.

Í Dagskránni í síðustu viku heldur meirihlutinn því svo fram að þetta sé fjárhagslega algerlega sambærilegt við það þegar meirihluti D-lista fór í framkvæmdir við Sundhöll Selfoss á síðasta kjörtímabili. Líklega er mönnum eitthvað að bregðast reikningslistin, því sú framkvæmd var 8,8% af skatttekjum. Félagstaðstaða og dagdvöl fyrir eldri borgara, sem þeir nefna líka í þessu sambandi, kostaði 5,7% af tekjum sveitarfélagsins. Meirihlutinn virðist vera á þeirri vegferð að bulla nógu mikið og vonast til að bullið breytist í sannleika í þeirra meðförum.

Ekki liggur fyrir hvernig fjármagna á verkefnið, ofan í allt annað sem gera þarf. Hef ég margsinnis bent á að knatthúsi fyrir tæpa tvo milljarða sé ofaukið í fjárfestingu sveitarfélagsins á þessum tíma þegar þarf að fara í mikla uppbyggingu á innviðum.

Hér er yfrlit yfir það sem er framundan í framkvæmdum auk knatthússins:

  • Nýr 6 deilda leikskóli     ca 1 milljarður á 1 ári.
  • Bygging hjúkrunarheimilis 463 kr. á næstu 2 árum.´

Á næstu árum er þetta framundan

  • Bygging grunnskóla       3-5 milljarðar á næstu 3 árum.
  • Hreinsistöð                      1,5 milljarður á næstu 2 árum.
  • Íþróttahús við nýjan skóla 1 milljarður á næstu 2-3 árum.
  • Kennslulaug við Sunnulækjarskóla 1 milljarður á næstu 3-4 árum.

Þetta eru bara stóru verkefnin og rétt að minna á hvað er framundan.

Nauðsynlegt er að forgangsraða rétt og gæta að því að setja sveitarfélagið ekki í þá stöðu að það fái ekki lán til framkvæmda þegar kemur að því að byggja upp fyrir lögbundna þjónustu.  Sveitarstjórnum er skylt að gæta ábyrgðar við meðferð fjármuna sveitarfélags. Það er ekki gert með því að leggja fram ófullnægjandi og eða rangar upplýsingar um kostnað til að komast hjá því að fá álit óháðs aðila sem væri ekki meirihlutanum í hag.

 

Gunnar Egilsson, D-lista.

Nýjar fréttir