2.7 C
Selfoss

Ég teldist seint velja mér frumlegar bækur

Vinsælast

Heimir van der Feest Viðarsson, en millinafnið tók hann upp eftir konu sinni, Jolöndu van der Feest, er gamall (aðfluttur) Selfyssingur, með rætur úr Flóanum og víðar, en búsettur í Utrecht í Hollandi. Saman eiga þau soninn Kjartan sem er fæddur árið 2016. Heimir er stúdent af málabraut FSu 2003 og málfræðingur að mennt: BA, MA í íslenskri málfræði og nú að ljúka doktorsgráðu frá Háskóla Íslands. Heimir hefur alla tíð haft brennandi áhuga á tungumálum en fékk þó ekki „málveiruna” fyrr en hann kynntist sögulegri setningafræði í bland við félagsmálfræði. Í doktorsritgerð sinni fjallar hann um áhrif málstöðlunar eða „málhreinsunar“ á íslenska tungu á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar. Undanfarið hefur Heimir legið yfir gömlum sendibréfum, tímaritum og skólaritgerðum úr Lærða skólanum til þess að leita svara við því hvaða áhrif málstöðlunin hafði á íslenskuna á 19. og 20. öld.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Annars vegar er það Bréf Franz Kafka til Felice og hins vegar Óbyggileg jörð eftir David Wallace-Wells. Bréf Kafka hefur mig lengi langað að lesa og þá ekki síst til þess að átta mig á manninum á bak við höfundinn eða handan hans jafnvel. Einskær forvitni – og hnýsni. Hin bókin barst í tal þegar ég spjallaði við annan ungan föður, og gamlan Selfyssing, um áhyggjurnar sem fylgja því að ala upp börn upp inn í þennan viðsjála heim þar sem loftslagsbreytingar (munu) valda átökum og hörmungum.

 

Hvers konar bækur höfða til þín?
Ófrumlegheit er orð sem kemur fyrst upp í hugann. Af ótta við að lesa vonda bók hef ég alla tíð verið smeykur við að fara ótroðnar slóðir í bókavali. Ég yrði sennilega seint frömuður eða „áhrifavaldur“ að velja mér frumlega bók. Ég er mikill unnandi fræðibóka fyrir almenna lesendur og þar nýtur hugrekkið sín betur: bækur með fræðilegu ívafi um tilurð og bernsku alheimsins, þróun hans og lífsins í honum, samhliða alheima, um kvantafræði, strengjafræði og fleira í þeim dúr sem yngri gerðir af sjálfum mér hefðu áreiðanlega sofnað yfir í fjölbrautaskóla. Ég hef líka gaman af sjálfsævisögulegum skrifum en sá áhugi kviknaði sennilega eftir að hafa gleypt í mig Ofvitann í íslenskunámi í FSu.

 

Ertu alinn upp við bóklestur?

Það var mikið lesið fyrir mig sem barn og margar bækur eftirminnilegar: Lata stelpan (eftirminnileg mynd af Grétu sem ég var dauðhræddur við), Þegar leikföngin lifnuðu við, Palli var einn í heiminum, Skemmtilegu smábarnabækurnar, Snúður og Snælda, Einar Áskell, Jólagestir hjá Pétri og margt fleira. Sumt af þessu, sem enn hangir saman, les ég fyrir son minn. Heima var líka til bókin Max und Moritz, sem ég gaumgæfði a.m.k. myndirnar í af talsverðum óhug.

 

Sem barn las ég sennilega lítið sjálfur nema helst Einar Áskel, Andrés-blöð, Múmínálfana og auðvitað Ævintýri Tinna, en ég féll svo reyndar gjörsamlega fyrir Fimm-bókunum og Leynifélaginu Sjö saman eftir Enid Blyton, og eins Pollýönnu, sem ég skírði jafnframt hamsturinn minn, Pollý, í höfuðið á. Tinna-bækurnar hafa líka nýst mér síðar í tungumálanámi því ég lærði heilmikið í hollensku fyrsta árið sem skiptinemi í Hollandi með því að bera saman þýðingar. Svo finnst mér mjög skemmtilegt að fyrir háttinn pantar sonur minn næstum alltaf Tinna og Tobba ef ég spyr hvað við eigum að lesa saman. Hann fær þá reyndar aðeins ritskoðaða gerð, því Tinna-bækurnar eru ansi ofbeldisfullar á köflum. Svaðilför í Surtsey (og górilluapinn) er í sérstöku uppáhaldi hjá honum en við eigum reyndar eftir að lesa uppáhaldið mitt úr syrpunni, Eldflaugastöðina + Í myrkum mánafjöllum.

 

Hvað einkennir lestrarvenjur þínar?

Á náttborðinu eru iðulega nokkrar bækur, yfirleitt úr ólíkum flokkum, t.d. ein ævisaga eða bréf, ein spennusaga og eitt fræðilegt rit, sem ég gríp eftir því hver gállinn er á mér hverju sinni. Það hendir mig líka oft að byrja á bók og ljúka henni ekki, eða halda áfram með hana löngu síðar. Ég held að þetta tengist valkvíða. Knappt frásagnarform höfðar líka til mín, smásögur sem draga upp sterka mynd en eftirláta lesandanum svigrúm til þess að setja myndina í samhengi og mér finnst jafnvel sumar bækur of góðar til þess að „umbera“ að sjá fyrir endann á þeim. Þá er betra að treina sér þær svolítið. Opnir endar eru, eins og gefur að skilja, í nokkru uppáhaldi. Þá kemur reyndar líka fyrir að ég get ekki valið á hvaða máli ég vil lesa. Nafn rósarinnar las ég til dæmis til hálfs á íslensku og hálfs á hollensku. Það keyrði um þverbak þegar ég las Réttarhöldin eftir Kafka því ég ætlaði að lesa þau á frummálinu en svo þegar þýska Kafka var farin að reyna fullmikið á þolrifin fann ég í staðinn nýlega hollenska þýðingu. Þar fannst mér stíllinn á þýðingunni hins vegar svo flatur og ólíkur frumtextanum, svo ég fann eldri hollenska þýðingu sem var nær stíl Kafka. Hana las ég trúlega þar til um þriðjungur var eftir af bókinni. Bókina kláraði ég svo eftir líknandi „lestrarhlé“ í ljómandi góðri þýðingu Ástráðs Eysteinssonar og Eysteins Þorvaldssonar.

 

Hefur bók rænt þig svefni?

Sem krakka er mér minnistætt hvernig einhverjar af Leynifélaginu Sjö saman rændu mig svefni. Minning um stað og stund heima í Þrastarimanum eftir svona lotu er mér í fersku minni. Annars fóru þessar bækur líka með í bústaði og orlofshús í sumarfríum.

 

En hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ég yrði afleitur rithöfundur en það væri skemmtilegt að skrifa aðgengilegt rit um íslenska málsögu og taka til dæmis skipulega fyrir þessa gömlu mýtu að íslenska hafi lítið breyst í aldanna rás. Þetta yrði svona eitthvað í anda Þjóð í hlekkjum hugarfarsins. Kannski næsta jólabók?

Nýjar fréttir