12.8 C
Selfoss

Ástir fiskanna í Þingvallavatni

Vinsælast

Það er farið að hausta á Þingvöllum og vatnið er spegilslétt. Á bakkanum stendur hópur fólks í kafarabúningum og býr sig undir að stinga sér á kaf í vísindalegum tilgangi. Markmiðið er að varpa ljósi á þróun mismunandi afbrigða bleikju í vatninu en þau eru fjögur talsins og virðast vera á fyrstu stigum myndunar tegunda.

Fyrir vísindahópnum fer Kalina Hristova Kapralova, nýdoktor í líffræði, sem hefur varið undanförnum áratug í að rannsaka bleikjuna í Þingvallavatni og hvað ræður þróun hinna ólíku afbrigða hennar. „Þingvallableikjan er stórkostlegt kerfi til að rannsaka myndun nýrra tegunda. Bleikjuafbrigðin eru ung í þróunarfræðilegu tilliti. Frá því að jökull hörfaði af svæðinu fyrir um 10 þúsund árum og bleikja synti fyrst upp í vatnið hefur tegundin þróast í fjögur afbrigði sem eru ólík í útliti, atferli og lífssögu.“

Bæði meistara- og doktorsverkefni Kalinu snerust um þessa merkilegu fiska en í verkefnunum komst hún m.a. að því að afbrigðin í Þingvallavatni eru erfðafræðilega aðgreind og lítið um genablöndun milli þeirra. „Þess vegna fór ég velta fyrir mér hvað hindraði blöndun afbrigðanna og á síðustu árum hef ég rannsakað hvað aftrar æxlun og genaflæði á milli þeirra,“ segir Kalina.

Til þess að afla þessara upplýsinga fylgjast rannsakendurnir m.a. með bleikjunni í vatninu og festa allt á myndband. Rannsóknirnar hafa þegar leitt í ljós að blendingar tveggja minnstu bleikjuafbrigðanna, murtu og dvergbleikju, vaxa hægar og höfuðlag þeirra er ólíkt bæði dvergbleikju og murtu. „Okkur grunar að þetta hafi áhrif á hæfni og þar með lífslíkur blendinganna í náttúrunni. Köfunarleiðangrar okkar og upptökur hafa enn fremur leitt í ljós að murtan og dvergbleikjan nýta sama svæðið í vatninu til hrygningar en það er örlítill munur á tímasetningu hrygningar og dýpt á hrygningarstöðum hjá þessum tveimur afbrigðum,“ segir Kalina enn fremur.

Kalina vonast til að rannsóknirnar auki skilning okkar á því hvað ræður þróun mismunandi afbrigða bleikjunnar. „Við höfum jafnframt safnað saman kvikmyndaefni úr köfunarleiðöngrum okkar og erum að vinna úr því heimildamynd sem hægt er að nýta bæði í vísindalegum tilgangi og til almennrar fræðslu um Þingvallableikjuna. Hún getur nýst öllu samfélaginu og vakið athygli á mikilvægi tegundafjölbreytni og varðveislu ólíkra lífkerfa í náttúrunni,“ segir Kalina.

Nýjar fréttir