12.3 C
Selfoss

Krabbameinsráðgjöf veitt á HSU

Vinsælast

Á þriðjudaginn 5. nóvember sl. var undirritaður á Sjúkrahúsinu á Selfossi samstarfssamningur milli Krabbameinsfélagsins, Krabbameinsfélags Árnessýslu og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) um ráðgjöf fyrir sjúklinga í krabbameinsmeðferðum.

Meðferð við krabbameinum hófst á sjúkrahúsinu fyrir ári síðan en fram að þeim tíma höfðu krabbameinssjúklingar sótt meðferð til Reykjavíkur.

„Þetta fór rólega af stað en það er gríðarlegur vöxtur í aðsókninni og þjónustunni sem við erum að veita,“ segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU.

Fljótlega kom þó í ljós að þörf var á stuðningi og Krabbameinsfélag Árnessýslu leitaði til Krabbameinsfélagsins um ráðgjöf og stuðning fyrir krabbameinssjúklinga á svæðinu.

“Markmiðið hjá okkur í Krabbameinsfélagi Árnessýslu hefur alltaf verið að færa þjónustuna í heimabyggð,“ segir Svanhildur Ólafsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu.

Í Bleiku slaufunni 2017 var söfnunarfé varið til að efla ráðgjöf og stuðning og hefur þeim fjármunum meðal annars verið varið til að koma á ráðgjöf á Akureyri og nú á Selfossi.

„Þetta skiptir mjög miklu máli því nú er Suðurlandið orðið 30 þúsund manna svæði og mikill vöxtur í Árborg og hér í kring,“ segir Sigurður Böðvarsson, krabbameinslæknir.

„Hér munum við bjóða upp á viðtal fyrir alla sjúklinga sem eru að koma í upphaf meðferðar og síðan ræðst það eftir óskum og þörfum hvers og eins hversu oft þeir vilja koma til okkar og sækja þessa þjónustu og það erlíka mjög mikilvægt fyrir okkur sem heilbrigðisstarfsmenn að fylgjast með líðan sjúklinganna okkar og grípa þá inní þegar þess er þörf,“ segir Díana.

„Það er alveg nógu mikið álag að takast á við sjúkdóminn að þurfa ekki að sækja þjónustuna yfir heiðina,“ segir Svanhildur og bæti við að það skipti máli fyrir samfélagið: „því við erum að veita þá heildstæða þjónustu.“

„Ég vil hvetja alla sem sjá hag sinn í að nýta þessa þjónustu ekki að hika til að leita til okkar því við eru hér til staðar fyrir sjúklinga og aðstandendur,“ segir Díana.

Rágjöf er veitt annan hvern föstudag.

Nýjar fréttir