12.3 C
Selfoss

Kröftugt vetrarstarf Karlakórs Selfoss 2019-2020

Vinsælast

Lögin hans Steina spil o.fl. perlur eru á verkefnaskrá vetrarins

Fimmtugasta og fimmta starfsár Karlakórs Selfoss hófst formlega í lok september sl. þegar tæplega 70 söngmenn mættu á fyrstu æfingu. Áður hafði sérstakt kynningarkvöld verið haldið fyrir nýja félaga og var þar vel mætt, og fjöldi nýrra söngmanna hafa mætt á fyrstu æfingar kórsins. Verkefnabók vetrarins er komin í notkun og er þar að finna mörg nýútsett sönglög og má m.a. nefna nokkrar perlur úr lagasafni Steina spil, sem kórfélagar eru mjög spenntir fyrir. (Grásleppu-Gvendur, Kanarý, Snjómokstur o.fl.) Lögin eru útsett fyrir karlakór af stjórnanda Karlakórs Selfoss, Skarphéðni Þór Hjartarsyni, sem nú snýr aftur til starfa eftir ársleyfi. Að sjálfsögðu verða líka hefðbundin karlakóralög á verkefnaskránni.

Fyrsti viðburður starfsársins var að mæta eina kvöldstund í Menningarsalinn á Selfossi og syngja fyrir Gísla Einarsson vegna upptöku á Landanum, sem sýndur verður á RUV um mánaðamótin okt.-nóv. Síðan er heimsókn til Hafnarfjarðar áformuð laugardaginn 9. nóvember og verður sungið á sameiginlegum tónleikum með Karlakórnum Þröstum í Víðistaðakirkju og að söng loknum verður efnt til samsætis kóranna ásamt mökum.

Jólatónleikar

Að venju eru tvennir jólatónleikar á dagskrá kórsins og er sérstaklega leitast við að hafa þá hátíðlega og um leið skemmtilega. Sungið verður í Skálholtskirkju mánudagskvöldið 9. desember og í Selfosskirkju mánudagskvöldið 16. desember. Aðgangur að jólatónleikunum er eins og fyrr ókeypis og allir velkomnir.

Herrakvöld

Fastur liður í starfsemi Karlakórs Selfoss undanfarin ár eru herrakvöld um miðjan janúar, þar gæða kórfélagar og gestir þeirra sér á sviðum og saltkjöti. Herrakvöldið að þessu sinni ber uppá 17. janúar nk. Á útmánuðum einbeita söngmenn sér svo að undirbúningi vortónleika sem skv. venju hefjast á sumardaginn fyrsta í Selfosskirkju, en kórinn mun syngja á fernum vortónleikum í lok apríl og byrjun maí 2020.

Sem fyrr segir er Skarphéðinn Þór Hjartarson stjórnandi Karlakórs Selfoss og píanóleikari er Jón Bjarnason. Æft er á mánudagskvöldum kl. 20.00-22:30 í félagsheimili kórsins að Eyravegi 67. VBr.

 

 

Nýjar fréttir