2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Korn um kæfisvefn   

Korn um kæfisvefn   

0
Korn um kæfisvefn   
Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarstóri heilsugæslustöðvarinnar í Vík.

 Kæfisvefn er ástand sem einkennist af endurteknum öndunartruflunum í svefni og syfju í vöku. Öndunarhlé í kæfisvefni verða oftast vegna þrengsla eða lokunar í efri hluta öndunarvegarins (frá nefi að koki). Þá reynir einstaklingurinn að ná andanum með sífellt kröftugri innöndunartilraunum. Einkenni eru verri ef legið er á bakinu. Sjaldgæfari eru svokölluð miðlæg öndunarhlé þar sem ekkert loftflæði á sér stað en heldur ekki nein tilraun til öndunar. Hjá fullorðnum telst það öndunarhlé ef öndunin hættir alfarið í 10 sekúndur eða lengur og það telst vera kæfisvefn þegar slík öndunarhlé í svefni eru 5 eða fleiri á klukkustund.

Kæfisvefn þekkist bæði hjá börnum og fullorðnum en er algengastur hjá fullorðnum karlmönnum. Flestir þeirra sem þjást af kæfisvefni eru í yfirþyngd, það er þó ekki algilt. Áfengi og svefnlyf stuðla að kæfisvefni og sama er að segja um nefstíflu af hvaða orsök sem er. Merki kæfisvefns geta verið; hrotur, órólegur svefn, sviti, martröð og að börn væta rúmið. Að deginum kemur oft fram morgunhöfuðverkur, syfja og sljóleiki. Syfjan að deginum getur í sjálfu sér verið hættuleg, ef fólk sofnar við vinnu eða akstur, en fleiri hættur eru á ferðinni. Við kæfisvefn berst ekki nóg súrefni í blóðið og þar með verður súrefnisskortur í vefjum líkamans. Þetta getur valdið ýmsum einkennum, m.a. hjartsláttartruflunum hjá þeim sem hafa undirliggjandi hjartasjúkdóma. Það virðast tengsl milli kæfisvefns annars vegar og kransæðasjúkdóms, hás blóðþrýstings og æðasjúkdóma hins vegar.

Það er full ástæða til að fá greiningu og meðferð við kæfisvefni. Megrun er  mikilvæg hjá þeim sem eru of þungir. Engin árangursrík lyfjameðferð er til við kæfisvefni þó að ýmislegt hafi verið reynt.

Til eru nokkrar gerðir tækja sem veita öndunaraðstoð í svefni og hafa þau sýnt sig í að geta bætt gæði svefns verulega. Þessi tæki eru þannig að einstaklingurinn sefur með grímu sem er tengd við loftdælu eða loftkút og við það hækkar þrýstingur loftsins við innöndun sem dregur úr eða kemur í veg fyrir kæfisvefn.

 

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvarinnar í Vík