1.7 C
Selfoss

Ungir foreldrar og fjölskyldur í Árborg

Vinsælast

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um stöðu leikskólamála í Svf Árborg. Á næstu vikum verða þrjár lausar kennslustofur teknar í notkun á leikskólunum Álfheimum og Árbæ. Við það fjölgar verulega leikskólarýmum á Selfossi. Á næsta ári verður byggður nýr leikskóli í Engjalandi sem mun tryggja að hægt verður að bjóða uppá  næg leikskólarými í sveitarfélaginu en gert er ráð fyrir að sá leikskóli verði opnaður í upphafi árs 2021.

Nú eru rétt rúmlega 500 nemendur í leikskólum Svf. Árborgar og þegar er búið að bjóða 26 börnum pláss á nýjum deildum sem opnaðar verða í leikskólanum Álfheimum. Vinna við deildirnar í Álfheimum gengur vel og þar verður vonandi hægt að opna í lok október. Einnig er fyrirhugað að setja upp eina nýja deild við heilsuleikskólann Árbæ.

Það er eðlilegt að ungir foreldrar séu óþreyjufullir eftir svörum og hafi áhyggjur af stöðunni í leikskólamálum. Því er mikilvægt að upplýsa að bæjaryfirvöld í Árborg horfa í öllum sínum aðgerðum fyrst og fremst til þess að tryggja nægjanlegan fjölda plássa í leikskólum og grunnskólum sveitarfélagsins til framtíðar. Í málefnasamningi meirihluta bæjarstjórnar kemur skýrt fram  að börn eigi að fá pláss  á leikskóla við 12 mánaða aldur og að því markmiði verður unnið með ákveðnum og markvissum hætti á næstunni.

Foreldraorlof

Vonir standa til að Alþingi samþykki 12 mánaða foreldraorlof, en það mál hefur dregist allt of lengi. Í því sambandi er ástæða til að minna á að sveitarfélög á Íslandi hafa byggt upp leikskóla allt niður í 12 mánaða aldur án þess að til þess verkefnis kæmu nokkrir tekjustofnar frá ríkinu. Það þýðir auðvitað að sveitarfélög hafa verið misvel í stakk búinn til að takast á við þau verkefni. Svf.  Árborg stefnir að því að veita þessa nauðsynlegu þjónustu svo fljótt sem verða má.

Vissulega hefur staðan í þessum málum verið erfið  að undanförnu í ljósi þeirrar íbúafjölgunar sem verið hefur í sveitarfélaginu. Á sama tíma er þó verið að undirbúa framtíðarlausnir. Samhliða því að nýr leikskóli verður byggður á næsta ári verður hafist handa við framkvæmdir við nýjan grunnskóla í Björkurstykki næsta sumar. Einnig er verið að uppfæra vinnulag starfsmanna sveitarfélagsins við greiningar og áætlanagerð, s.s. mannfjöldaspár, fjárhagsáætlanir og húsnæðisáætlanir með það fyrir augum að framvegis verði brugðist tímanlega við þörf fjölskyldufólks fyrir þá þjónustu sem sveitarfélagið ætlar sér að veita.

Sérstök áhersla verður lögð á umhverfi íbúa á næstu árum þar sem göngu- og hjólastígar og leiksvæði verða byggð upp af metnaði. Á næsta ári er gert ráð fyrir að útbúa leiksvæði í Dísastaðalandi og gert er ráð fyrir að samhliða verði  lokið við uppbyggingu leiksvæða í nýju hverfi í Hagalandi. Á næsta ári verður haldið áfram með göngustíg meðfram Eyrarbakkavegi, sem mun að lokum tengja saman þéttbýliskjarna sveitarfélagsins til framtíðar.

Við trúum því að ungir foreldrar og fjölskyldufólk muni njóta góðs af þessum áherslum á næstu tveimur árum.

 

Nýjar fréttir