5.6 C
Selfoss

Hitaveitumál í Hveragerði rædd á íbúafundi

Vinsælast

Veitur ohf. buðu til íbúafundar um málefni hitaveitunnar í Hveragerði 8. október sl. Fundurinn var haldinn á Skyrgerðinni í Hveragerði og fjöldi sótti fundinn. Haft var á orði að langt væri síðan svo fjölsóttur íbúafundur hefði verið haldinn í bænum. Nokkur kurr var meðal fundargesta vegna ýmissa vandamála tengt hitaveitunni en til svara voru starfsmenn Veitna sem reka hitaveituna í Hveragerði.

Húshitun trygg í vetur

Íbúar bentu á á fundinum að lágt hitastig væri á því vatni sem til þeirra bærist. Því var svarað til að vatn frá varmastöðinni væri að fara þaðan nálægt 80° en skv. mælingum var hitastig yfir 77° í 97% tilfella. Þá kom fram að alls hefðu borist 62 kvartanir yfir hitastigi frá 2017. Mismunandi var hverju sætti en í 35% tilfella var búnaður húseigenda í ólagi í 32% tilfella var stíflaðri síu um að kenna og í 14% tilfella var ástæðan viðhaldsaðgerðir hjá Veitum. Í 8% tilfella var hitamælir ekki að sýna rétt gildi. Í samtali við Ólöfu Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Veitna, kemur fram: „Þar sem alltaf geta komið upp staðbundin vandamál í dreifikerfinu þykir okkur vænt um að fá tilkynningar frá húseigendum svo við getum heimsótt, til að greina vandann, og ef hann snýr að okkur að ráða bót á honum. Aðspurð hvort flökt verði á húshituninni segir Ólöf: „Á fundinum kom fram að samkvæmt núverandi áætlunum á húshitun að vera trygg í vetur en líklegast verða einhverjar truflanir í gufuveitunni.“ Blaðamaður bendir á að einn íbúi taldi sig hlunnfarinn vegna þess að vatnið væri kalt og því þyrfti meira vatn til að hita og því greiddi hann hærri gjöld. „Ef fólk telur sig vera að fá of kalt vatn þá viljum við endilega að fólk tilkynni okkur það og við mætum á svæðið til að greina vandann. Slíkar tilkynningar eru okkur nauðsynlegar, þær eru okkar eina sýn á dreifikerfið.  Ef vandamálið reynist vera hjá okkur, þá reynum við að ráða bót á því og veitum ráðgjöf ef orsökin er önnur,“ segir Ólöf.

Blæstri á holum hætt

Þá komu fram áhyggjur íbúa af blæstri á holum innan bæjarmarkanna bæði vegna hávaða sem af því hlýst og loftmengun. „Gangi áætlanir okkar eftir, þá reiknum við með að hætta rekstri á holum í blæstri innan bæjarmarkanna á fyrrihluta næsta árs. „Við munum bæta í varðandi mælingar, þar sem fram komu á fundinum að núverandi mælistöð væri þannig staðsett að hún væri undan vindi í algengustu vindáttinni. Við munum birta þær mælingar sem gerðar verða af okkur og óháðum aðilum þegar niðurstöður liggja fyrir,“ segir Ólöf aðspurð um loftmengun og viðbrögð við þeim.

Rekstur tryggður með nýrri tegund af dælubúnaði

Fram kom í máli Veitna að verið væri að undirbúa nýja tegund háhitadælu. Aðspurð hvaða þýðingu það hefur fyrir íbúa segir Ólöf: „Með tilkomu þessarar dælu í holuna í Hveragarðinum mun forðaöflun verða mun stöðugri og ekki verður þörf á að hafa holuna í Klettahlíð í blæstri, nema að það komi upp bilanir. Gangi vel með þessa dælu, þá munum við setja eins dælu niður í holuna í Klettahlíð líka og þá mun ekki þurfa að reka holu í blæstri innan bæjarmarka ef bilun kemur upp í holunni í Hveragarðinum.“ Þá komu fram áhyggjur af því að svæðið væri að kólna vegna áhrifa frá nærliggjandi virkjunum. Ólöf sagði að það væri ekki rétt. „Það hafa ekki fundist nein tengsl milli jarðhitasvæðanna sem virkjanir á Hellisheiði og Nesjavöllum nota og jarðhitans í Hveragerði. Hann kemur frá kulnaðri eldstöð í Grændal. Ef borin er saman hiti, efnasamsetning og dýpi á jarðhitavatnið sést að ekki er um sama forða að ræða, segir Ólöf að lokum. -gpp

 

 

 

 

Nýjar fréttir