8.9 C
Selfoss

Hagræðing af sameiningum sveitarfélaga metin allt að 3,6-5 milljarðar á ári

Vinsælast

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur látið greina möguleg hagræn áhrif þess að lögfesta ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga við töluna 1.000. Tvær aðferðir voru notaðar við greininguna sem gáfu til kynna að svigrúm til hagræðingar við að lögfesta ákvæðið getur orðið allt að 3,6-5 ma.kr. á ári.

Samkvæmt tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga, sem mælt verður fyrir á Alþingi síðar í mánuðinum, er aðgerð sem felur í sér að sett verði að nýju ákvæði í sveitarstjórnarlög um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélagi og að hann verði ekki miðaður við 1.000 íbúa. Nái tillagan fram að ganga er ljóst að sveitarfélögum á Íslandi mun fækka umtalsvert, en í yfir helmingi sveitarfélaga búa færri en 1.000 íbúar.

Ýmsir aðilar hafa bent á að mikil hagræðing felist í slíkri aðgerð. Hægt væri að nýta þann ávinning til að lækka álögur á íbúa, greiða niður skuldir og þar með lækka kostnað og/eða auka þjónustu við íbúa og styrkja innviði. Nú þegar þingsályktunartillagan verður tekin til umræðu er mikilvægt að fyrir liggi hagræn greining á áhrifum hennar, þ.e. mati á fjárhagslegum og hagrænum áhrifum þess að sveitarfélögum fækki um allt að helming.

Tvær aðferðir voru notaðar til greiningar á hagrænum áhrifum tillögunnar. Önnur aðferðin studdist við kostnaðartölur málaflokka undangenginna fimm ára og kostnaðarlíkön metin fyrir alla málaflokka, annars vegar fyrir minni sveitarfélög (999 íbúar og færri) og hins vegar stærri (1000-4000 íbúar). Sú aðferð gaf til kynna að svigrúm til mögulegrar hagræðingar við það að setja lágmarks íbúafjölda sveitarfélaga í 1.000 getur orðið 3,6 ma.kr. á ári á sveitarstjórnarstiginu. Hin aðferðin gekk út á það að velta fyrir sér líklegum sameiningarmynstrum og meta út frá því hvaða tækifæri til hagræðingar slík endurskipulagning hefði í för með sér. Þessi aðferð skilaði mati á tækifærum til mögulegrar hagræðingar sem nemur um 5 ma.kr. á ári.

Ekki var gerð tilraun til að meta sérstaklega hvernig sá ávinningur eða hagræðing skiptist á milli sveitarfélaga, Jöfnunarsjóðs og ríkissjóðs, heldur var reynt að ná eins góðri námundun og unnt er á það hvaða tækifæri til hagræðingar geta skapast innan sveitarstjórnarstigsins, óháð því hvar hún verður og hvort forsvarsmenn sveitarfélaga ná að innleysa fjármunina og nýta t.d. til að auka þjónustu við íbúa.

Nýjar fréttir