1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Get ég fengið athygli, plís?

Get ég fengið athygli, plís?

0
Get ég fengið athygli, plís?

Hefur þú lent í því að vera að tala við einhvern og viðkomandi er rosalega mikið
upptekin af því að horfa á símann sinn. Viðkomandi svarar í lágum rómi eins og hann sé
að veita þér athygli en þú upplifir samt ekki að samtalið sé innilegt þar sem viðkomandi
horfir ekki í augun á þér?

Hvernig líður þér þegar þetta er gert

Ég og maðurinn minn fórum einu sinni á lútherska hjónahelgi þar sem samskiptaaðferðir
voru meðal annars kenndar. Þar heyrði ég fyrst frasann “ að hlusta með hjartanu ”. Það
er mjög algengt að karlar eigi erfitt með að hlusta án þess að koma strax með lausnir
fyrir konuna sína. Ég hef því stundum sagt við manninn minn: “Viltu bara hlusta með
hjartanu og horfa á mig.”

En þessi samskipti eiga sér ekki bara stað í samskiptum hjóna eða para.

Það er svo margt sem er í gangi. Mikið áreiti og oftar en ekki einbeitum við okkur ekki
nægilega vel að því sem börnin okkar eru að segja. Tilfinningar barna koma ekki bara í
ljós í gegnum það sem þau segja. Þær geta komið fram sem pirringur, magaverkur,
depurð o.s.frv. og þá þurfum við að læra að hlusta með hjartanu til að skilja hvað er í
gangi.
Ég hef oft lent í því að börnin mín tali við mig en ég er svo upptekin af einhverju sem ég
er að skoða í símanum að ég heyri ekki hvað þau eru að segja. Dóttir mín er mjög
hreinskilin þegar slíkt gerist og segir: “mamma, þú ert ekki að hlusta.” Það er svo
auðvelt að láta t.d. vinnuna, annað fólk (sem er ekki á staðnum) taka þann tíma sem
börnin okkar eiga skilið að fá. Við þurfum að hlusta. Við þurfum að vera til staðar. Það
skiptir svo miklu máli.
Í þessari viku hvet ég þig til þess að veita fjölskyldu þinni og vinum óskipta athygli.
Leggðu símann frá þér og settu einhverskonar reglur varðandi notkun síma og sjónvarp.
Það er hægt að setja app inn í símann sem bendir okkur á það hversu oft við t.d
aflæsum símanum og hvað það er sem við raunverulega erum að gera í símanum
okkar. Þetta app heitir Action dash. Ég hvet þig til þess að skoða hversu mikla athygli
síminn tekur frá þér. Það er svo oft sem við “skrollum” í gegnum símann okkar af því að
við erum að leita leiða til að slaka á og hvíla okkur. Fyrr en varir eru liðnar 10-20
mínútur sem við hefðum getað notað í endurnærandi hluti. Þetta mun ég meðal annars
fjalla um á nýja net námskeiðinu mínu Ofurmamma? Sem fer af stað mánudaginn 7.
Október næstkomandi. Þú getur fundið upplýsingar um það á www.einfaldaralif.is .
Ekki vera eitt af þessum foreldrum sem börnin horfa á og hugsa… ég vildi að
mamma/pabbi gæfi mér jafn mikla athygli og símanum. Ekki vera ein af þessum
vinkonum sem er stanslaust í símanum þegar þið hittist. Ekki vera þessi maki sem er of
upptekin af því hvað er að gerast í vinnunni eða á samfélagsmiðlum að hann gleymir að
vera í núinu.

Kærleikskveðja,
Gunna Stella