-1.6 C
Selfoss
Home Fréttir Svanborg ráðin sem prófessor við HÍ

Svanborg ráðin sem prófessor við HÍ

0
Svanborg ráðin sem prófessor við HÍ

Svanborg R. Jónsdóttir.

Nýlega hlaut Svanborg R. Jónsdóttir á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi framgang í stöðu prófessors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Svanborg flutti í Gnúpverjahrepp 1973 og að loknu kennaraprófi 1978 kenndi hún við grunnskólann þar til 2006, en þá hóf hún doktorsnám við Háskóla Íslands. Áður hafði hún lokið MA gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum við Félagsvísindadeild HÍ. Meðfram doktorsnámi kenndi hún við HÍ og á námskeiðum víða um land. Einnig var hún eina önn í Háskólanum í Exeter á Englandi og starfaði þar með þekktum fræðimönnum. Að loknu doktorsnámi hefur Svanborg verið í fastri stöðu við Háskóla Íslands.

Svanborg var frumkvöðull í nýsköpunarkennslu og innleiddi það námssvið í Gnúpverjaskóla meðan hún starfaði þar og var það aðal umfjöllunarefni hennar í doktorsnáminu. Nú er hún sérfræðingur í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt við HÍ. Hún hefur tekið þátt í mörgum samstarfsrannsóknarverkefnum bæði hér innanlands og erlendis og stýrði tveimur rannsóknarhópum kennara sem gerðu starfendarannsóknir sem snerust um að greina hvernig þeir fara að því að efla sköpun í námi nemenda sinna. Svanborg hefur skrifað og fengið birtar fjölda ritrýndra greina og bókarkafla og er höfundur bókarinnar The road to independence. Emancipatory pedagogy ásamt dr. Rósu Gunnarsdóttur (nánari upplýsingar á uni.hi.is/svanjons).

Svanborg er gift Valdimari Jóhannssyni bónda á Stóra-Núpi og eiga þau fimm börn. Börn þeirra eru Jóhann vélsmíðameistari á Selfossi, Bryndís grunnskólakennari í Hveragerði, Anna Sigríður náttúrufræðingur hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti, Jón Einar húsasmíðameistari og kennari í Hveragerði og Auður Gróa sálfræðingur og meistaranemi í verkefnastjórnun í viðskiptafræðideild  Háskóla Íslands.