2.8 C
Selfoss

Erlendir ferðamenn ánægðastir með Suðurland

Vinsælast

Ferðaþjónustan sem atvinnugrein er orðin ein af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Á Suðurlandi er það engin undantekning og eiga mörg svæði mikið undir atvinnugreininni. Markaðsstofa Suðurlands er hluti af stoðkerfi ferðaþjónustunnar og hefur m.a. þann tilgang að hafa yfirsýn, gæta hagsmuna, veita upplýsingar og halda utan um verkefni sem stuðla að því að auka veg ferðaþjónustunnar í landshlutanum.

Dagskránni lék forvitni á að vita hver staðan væri í ferðaþjónustunni á Suðurlandi og leitaði til Dagnýjar Huldu Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands.

 Árstíðasveifla enn til staðar

„Suðurland fær um 74% gesta sem koma til landsins um Keflavíkurflugvöll. Það er hærra hlutfall en í öðrum landshlutum, utan höfuðborgarinnar, þar sem árstíðasveiflan er mjög lítil samkvæmt könnun Ferðamálastofu um ferðavenjur erlendra ferðamanna. Nú hafa ekki verið birtar tölur fyrir einstaka landshluta fyrir sumarið í sumar, en ætla má að hlutfallslega hafi dregið úr fjölda ferðamanna til landshlutans í takti við það sem gerist á landsvísu,“ segir Dagný aðspurð um fjölda ferðamanna á Suðurlandi.

Þeir sem koma að ferðaþjónustu með einhverjum hætti þekkja vel til þess að sveifla sé á fjölda ferðamanna á hverjum tíma og sóknarfærin oft í að lengja veru ferðamanna á svæðinu. „Árstíðasveiflan á Suðurlandi er heldur meiri en á höfuðborgarsvæðinu. Þegar mest var heimsóttu 84,4% erlendra ferðamanna Suðurland (september) en 61,4% þegar minnst var (janúar). Okkar helsta verkefni er að fá gestina okkar til að dvelja lengur á Suðurlandi og auka þar með hagrænu áhrifin innan landshlutans,“ segir Dagný.

Flestir sáttir með sumarið, sem þó fór seint af stað

Eins og kunnugt er hefur umræðan snúist um fækkun ferðamanna á Íslandi. Ástæður þess eru meðal annars taldar fall WOW air og svo rekstrarstöðvun á flugvélum Icelandair. Það er því ekki úr vegi að spyrja Dagnýju hvernig þessi áhrif koma fram á Suðurlandi. „Af samtölum mínum við ferðaþjónustuaðila er hljóðið í þeim mjög misjafnt. Einhverjir finna sannarlega fyrir þessari fækkun meðan aðrir segja aðsóknina svipaða og fyrri ár og einhverjir segja hana jafnvel enn meiri. Í raun sé ég enga línu þar og erfitt að segja til um hver langtíma áhrifin verða. Margir eru að endurskipuleggja reksturinn, endurskoða vöruframboð, opnunartíma og slíkt til að bregðast við breyttu landslagi greinarinnar. Flestir eru þó tiltölulega jákvæðir eftir sumarið, sem fór þó hægt af stað, en rættist úr eftir miðjan júní að mér skilst,“ segir Dagný. Aðspurð hvort fleiri þættir komi til en áföll flugfélaganna segir Dagný: „Ferðavenjur í heiminum eru að breytast og verðum við óhjákvæmilega vör við það. Skemmri fyrirvari er á bókunum en áður og ferðamenn ferðast meira á eigin vegum. Því heyri ég að ferðaþjónustuaðilar sjái ekki eins langt fram í tímann í bókunum, eins og nú fyrir haustið og veturinn. Flestir eru þó ágætlega bjartsýnir á framhaldið heyrist mér og þeir gestir sem koma verja jafnvel meira en áður í bæði mat og afþreyingu.“

Ferðamenn ánægðastir með Suðurland

Í ferðavenjukönnuninni 2018 er Suðurlandið sá landshluti sem svarendur voru ánægðastir með en 84,5% voru mjög ánægðir með dvöl sína í landshlutanaum og 13,5% frekar ánægðir sem gerir 98% samtals sem annað hvort segjast mjög eða frekar ánægðir. „Ég held að það sé einstakt að slík ánægja mælist á einstaka áfangastað, þó svo ég sé ekki hissa á þessari miklu ánægju okkar gesta. Á Suðurlandi er tiltölulega löng hefð fyrir ferðaþjónustu. Í þeim stökkbreytta veruleika sem greinin hefur upplifað síðustu ár hafa ferðaþjónustuaðilar sem heild unnið kraftaverk við að halda í við vöxtinn en gætt þess að hlúa að gæðum og upplifun á sama tíma. Á Suðurlandi er að finna margar af þekktustu náttúruperlum landsins og fjölbreytt afþreying og menning er í boði. Þá tel ég að markaðssetning áfangastaðarins hafi gefið raunsanna mynd af áfangastaðnum og því hafi væntingar og upplifun haldist í hendur, sem er mikilvægur þáttur í mörkun áfangastaða,“ heldur Dagný áfram. „Þá er það sérstaklega ánægjulegt að Suðurland sé sá landshluti sem dregur vagninn í ánægju ferðamanna til landsins, en 73,7% sögðust mjög ánægðir þegar tekið er saman meðaltal fyrir landið allt. Þetta hvetur okkur til að halda áfram á sömu braut, vinna saman í að tryggja að gestir okkar fari ánægðir heim, hér eftir sem hingað til,“ segir Dagný að lokum.

 

 

Nýjar fréttir