8.4 C
Selfoss

Fyrsti hópur nemenda kominn í Ungmennabúðirnar á Laugarvatni

Vinsælast

„Við erum öll ótrúlega ánægð. Nemendurnir eru jákvæðir og kátir og þeim líður afskaplega vel,“ segir Júlía Guðmundsdóttir kennari við Vættaskóla í Grafarvogi. Nemendur í 9. bekk skólans voru þeir fyrstu sem komu í endubættar Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ að Laugarvatni í vikunni. Nemendurnir eru 36 talsins og komu þeir ásamt Júlíu og Renate Brunovska, hinum umsjónarkennara bekkjarins að Laugarvatni. Þar dvelur hópurinn fram á föstudag.

Júlía segir hópinn hafa nóg að gera alla dagana og dagskránna þéttbókaða frá klukkan 8 á morgnana til 9 á kvöldin. Nóg er um að vera, íþróttatengdir leikir, æfingar hvers konar og viðburðir af ýmsum toga sem tengjast útivist, hreyfingu og ætlar er að efla félagsfærni. Markmiðið með dvölinni er að efla vitund ungmennanna fyrir umhverfi sínu og samfélagi ásamt því að gera heilbrigðum lífsstíl hátt undir höfði.

Nemendum sem koma á Laugarvatn er hvorki heimilt að koma með síma, tölvur eða nesti að heiman og þurfa að haga sér innan þess ramma sem þar er settur. Bæði Júlía og Renate segja það hafa gengið vel fyrsta daginn og verði enginn afsláttur gefinn.

„Við erum mjög strangar en náum vel til krakkanna. Það skiptir máli að setja þeim ramma og þá fara þau eftir því sem við segjum. Enginn kemst upp með múður. En auðvitað er það foreldranna líka að fara eftir reglunum,“ segir Renate.

Júlíu finnst hún reyndar komin heim enda uppalin á Laugarvatni. Hún bendir á að krökkunum líði afskaplega vel þarna. Nokkur þeirra séu þegar farin að huga að næstu skrefum í námi og hafi þau pantað hjá henni heimsókn í vikunni í Menntaskólann á Laugarvatni sem er í göngufæri frá Ungmennabúðunum.

UMFÍ hefur starfrækt Ungmennabúðir á Laugum í Sælingsdal frá árinu 2005. Starfsemin hefur nú verið flutt í gömlu íþróttamiðstöðina að Laugarvatni og er við að byggja þar upp frábæra aðstöðu fyrir nemendur sem þar dvelja.

Nóg verður um að vera í vetur því um 2.000 nemendur eru bókaðir í Ungmennabúðum á Laugarvatni yfir skólaárið þótt það sé nýhafið og inn í næsta sumar.

Ítarlegri upplýsingar um Ungmennabúðirnar á Laugarvatni má sjá hér: www.ungmennabudir.is

Nýjar fréttir