9.5 C
Selfoss

Uppgröftur fornleifafræðinga á Vesturbúðarhól á Eyrarbakka

Vinsælast

Í síðustu viku fór fram rannsókn á Vesturbúðarhól á Eyrarbakka á vegum Fornleifastofnunar Íslands. Verkefnið er samstarfsverkefni Fornleifastofnunar, Dr. Ágústu Edwald Maxwell og Vesturbúðarfélagsins. Á Vesturbúðarhólnum voru verslunarhús sem flest voru reist um miðja 18. öld, alls um 3000 m2. Húsin voru jöfnuð við jörðu árið 1950 og timbrið flutt til Þorlákshafnar í nýtt hús þar. Þrátt fyrir það má enn sjá myndarlega veggi og lagfæringar á þeim á rannsóknarsvæðinu. Dagskráin hitti að máli Ragnheiði Gló Gylfasdóttir, fornleifafræðing, og spurði hana hvað komið hefði í ljós við rannsóknina. „Við grófum í vesturvegg hússins og fyrstu niðurstöður okkar sýna fram á að eldri bygging var þegar á svæðinu, veggur hússins raskar eldri torfvegg. Stækkunin var einnig beint ofan á þeim vegg og um 20 cm áfokssandur þar á milli. Eins og staðan er í dag vitum við ekki hvaða mannvirki torfveggurinn tilheyrir og ljóst að mikið verk er hér óunnið. Inni í húsinu fundum við stoðarholu og ummerki um tvö „herbergi“ eða rými. Við enduðum uppgröftinn á föstudag og svæðinu hefur verið lokað. Eins og oft vill verða með svona könnunarsvæði þá sitjum við uppi með margar spurningar sem við getum ekki svarað nema að húsið verði grafið fram í heild sinni. Húsið sem við grófum í var reist árið 1734 og gekk undir nafninu Fönix. Í úttektum kemur m.a. fram að það var stækkað á einhverjum tímapunkti og við fundum að öllum líkindum ummerki um það til vesturs. Í þetta sinn opnuðum við 25 fm svæði en það er talið vera um 180 fm alls, við opnuðum sem sagt bara lítinn hluta af því. Það er ljóst að fornleifarannsókn á Vesturbúðarhól mun bæta heilmiklu við sögu Eyrarbakka, Suðurlands alls sem og verslunarsögu landsins.“

Nýjar fréttir