1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Langar þig til að efla þig í að tala opinberlega?

Langar þig til að efla þig í að tala opinberlega?

0
Langar þig til að efla þig í að tala opinberlega?

Powertalk deildin Jóra á Selfossi var stofnuð fyrir 27 árum. Á Íslandi eru starfrækt tvö svið annarsvegar landssvið og hinsvegar deildir er eru um allt land. Um þessar mundir er vetrarstarfið að hefjast á Selfossi og Dagskráin kynnti sér hvað Powertalk stendur fyrir. Það lá í augum uppi að spyrja fyrst að hinu augljósa. Hvað er Powertalk? „Það að tala á opinberum vettvangi vex mörgum svo í augum að tilhugsunin ein er ógnvekjandi. Það þarf alls ekki að vera þannig. Með því að taka þátt í þessu getur maður náð þeirri færni og öryggi sem maður óskar eftir á sínum hraða. Hér öðlumst við öryggi til að standa á skoðunum okkar, yfirstígum kvíða, tökumst á við sviðsskrekk og heillum áheyrendur. Þetta er kjarninn í Powertalk  segir Svala Sigurgeirsdóttir einn meðlima Powertalkdeildarinnar Jóru.

Í deldinni eru starfandi 13 einstaklingar um þessar mundir en Svala segir að rými sé fyrir fleiri. Við gætum verið allt að 20 hér í þessari deild þannig að ef einhver hefur áhuga á því að efla sig með okkur þá er það velkomið. Aðspurð að því hvað starfið þýði í hennar huga stendur ekki á svari: „Það sem skiptir mig mestu máli við að taka þátt í Powertalk er félagsskapurinn og hvatningin sem ég hef fengið til að standa upp og flytja erindi af ýmsu tagi. Við ástundum uppbyggilega gagnrýni, lærum að taka á móti hrósi og einnig því sem betur má gera. Við hlægjum mikið saman því þetta er léttur félagsskapur þrátt fyrir alvarleika fundarskapa sem við lærum fljótt að taka þátt í. Ég hef líka lært að hlusta og taka eftir, því ég vil svo gjarnan komast með tærnar þar sem þessir frábæru flytjendur í Powertalk deildinni Jóru hafa hælana. Auk þess eru þessi samtök ekki góðgerðarsamtök þannig ég þarf ekki að baka eða halda basar, nenni því enganvegin, en samt er sko stundum alveg gott með kaffinu hjá okkur. Ég gekk inn á afmælisfund Jóru (ekki endilega besti fundurinn til að byrja á) fyrir um 7 árum, þekkti ekki hræðu en vissi að ég þyrfti á þessari uppbyggingu að halda og lét mig hafa það. Síðan þá hef ég gengt flestum embættum og er nú sérlegur ritari deildarinnar í vetur og hef fulla trú á að ég klúðri því ekki alvarlega enda komin í Powertalk til að læra.“

Áhugasömum er bent á að kíkja inn á heimasíðuna powertalk.is. Þá verður kynningarfundur á starfseminni þann 16. september nk. „Þá getur fólk komið, mælt okkur út, séð okkur við það sem við erum að æfa og gera en þarf ekki að taka þátt sjálft. Fundurinn verður í Selinu við Engjaveg 48 kl. 20-22, segir Svala að lokum.