7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Heimavistarmál

Heimavistarmál

0
Heimavistarmál
Fjölbrautaskóli Suðurlands. Ljósmynd: ÖG.
Sólmundur Magnús Sigurðarson.

Fjölbrautaskóli Suðurlands er annar tveggja framhaldsskóla sem starfræktir eru á Suðurlandi (að Vestmannaeyjum frátöldum) og eini Fjölbrautaskólinn í þessum landshluta. Fjölbrautaskóli Suðurlands þjónar um 25.000 ferkílómetra svæði allt frá Ölfusi í vestri til Skaftárhrepps í austri. Um 800 nemendur sækja skólann á hverri önn og kemur stór hluti af þeim nemendum annars staðar frá en póstnúmerinu 800. Frá hausti 2016 hafa þessir nemendur ekki haft aðgang að heimavist. Til þess að sækja skólann hafa því mörg ungmenni annað hvort þurft að lengja daginn sinn umtalsvert og binda hann með strætóferðum, leigja sér húsnæði á Selfossi, eða velja sér annan skóla og aðra framtíð en þá sem þau óska sér.

Námsframboð FSu er með því allra besta sem finnst á landinu og eru aðstæður til íþrótta- og iðnmenntunar sérstaklega eftirsóknarverðar fyrir marga en því miður geta ungmenni margra af þeim sveitarfélögum sem eiga skólann ekki sótt hann. Eiga sveitarfélög Suðurlands raunverulega eitthvað í þessum skóla ef ungmenni þeirra geta ekki sótt hann? Þetta er spurning sem sveitarfélög utan Árborgar hafa eflaust velt fyrir sér og er ánægjulegt að sjá þau skrifa undir áskorun til ríkisvaldsins um fjármagn til heimavistarreksturs en þó fyrr hefði verið vil ég meina.

Fjögur ár hefur tekið að stofna starfshóp og leggja til áskorun til stjórnvalda. Færa ábyrgðina annað. Eftir fjögur ár er komin áskorun. Kannski finnst Lilju sniðug hugmynd að bóka FSu sem heimavistarskóla og veita fjármuni eftir því í fjárlögum. En kannski ekki endilega í næstu fjárlögum, eða þarnæstu… en einhvern tímann gæti það gerst.

En hvað ef það gerist ekki? Hvað ef þessi lausn verður ekki að veruleika? Er plan B? Því mér og mörgum jafnöldrum líður eins og plan A, B, og C sé að bíða. Bíða eftir að einhver annar geri eitthvað í hlutunum. Eru sveitarfélögin ekki bara að færa ábyrgðina annað í bili?

Á hinn bóginn hefur rödd ungmenna varðandi þetta mál ekki verið nógu hávær og hefur umræðan aðallega verið drifin kurteisislega áfram af einstaklingum og ungmennaráðum.

Nemendur biðja kurteisislega um heimavist og fá alltaf að heyra að allir séu sammála en fá aldrei að sjá neitt gert í málunum.

Ég hvet ungmenni Suðurlands til að vera frekari og háværari. Látið finna fyrir ykkur. Í pólitík gengur allt mun hraðar ef þrýstingur er til staðar.

Foreldrar eiga líka að berjast fyrir þessu. Af hverju eiga sumir foreldrar að borga leigu fyrir barnið sitt? Skóli er talinn sem 100% vinna. Af hverju eiga sumir foreldrar að horfa upp á börnin sín í 130% jafnvel 150% vinnuálagi til að hafa efni á mat og leigu sem foreldrarnir geta kannski ekki greitt að fullu því það er ekkert peningatré í garðinum. Á öll fjölskyldan að neyðast til að flytja nær Selfossi? Þetta er ömurleg staða og ungmenni á Suðurlandi hafa svo sannarlega ekki jöfn tækifæri til náms. Búseta spilar allt of stóran þátt og eina hjálpin sem margir fá er styrkur frá LÍN sem dugir varla upp í strætókort. Dugir kannski mánuð í leigu. Þau fá þó að heyra að allir séu sammála um að það sé vandi. Geta huggað sig við það.

Undirtektir er ekki það sem vantar, nóg til af þeim. Það þarf aðgerðir.

Það þarf ekki áskoranir heldur kröfur.

Það þarf að leysa vandann.

Börn eiga ekki heima á leigumarkaði og börn eiga að njóta jafnra tækifæra til náms.

Þetta er staðhæfing sem flestir hljóta að vera sammála.

Sólmundur Magnús Sigurðarson, formaður Nemendafélags FSu.