9.5 C
Selfoss

Maríumessa og lokatónleikar í Strandarkirkju

Vinsælast

Hin árlega Maríumessa og lokatónleikar tónlistarhátíðarinnar Englar og menn verða sunnudag 11. ágúst nk. í Strandarkirkju og hefjast kl. 14. Sr. Kristján Björnsson vígslubiskup þjónar. Tónlistarflutning annast Björg Þórhallsdóttir sópran, Oddur Arnþór Jónsson baritón, Elísabet Waage harpa, Gunnar Kvaran selló og Hilmar Örn Agnarsson organisti sem leikur á harmóníum. Þau flytja blandaða dagskrá af sálmum, íslenskum sönglögum, Maríubænum og þekktum perlum tónbókmenntanna eftir Sigvalda Kaldalóns, Hreiðar Inga Þorsteinsson, A. Pärt, F. Schubert, J. Brahms, A. Vivaldi, P. Mascagni o.fl.

Áralöng hefð er nú orðin fyrir því að fella saman guðsþjónustu og lokatónleika hátíðarinnar á þessum tíma, sem ber upp á Maríumessu að sumri. Þar eru þakkaðar gjafir jarðar og lof m.a. sungið til Mariu meyjar, verndardýrlings kirkjunnar.

Tónlistarhátíðin Englar og menn hefur staðið yfir frá 30. júní sl. Hátíðin nýtur mikilla vinsælda og húsfyllir hefur verið á öllum viðburðum hátíðarinnar að sögn Bjargar Þórhallsdóttur listræns stjórnanda hennar, en hátíðin lýkur á sunnudag sínu áttunda starfsári.

Nýjar fréttir