2.3 C
Selfoss

Rófubóndinn á Eyrarbakka

Vinsælast

Í Húsinu á Eyrabakka stendur nú yfir ljósmyndasýningin Rófubóndinn. Þar sýnir Vigdís Sigurðardóttir áhugaljósmyndari eitt ár í lífi rófubóndans Guðmundar Sæmundssonar á Sandi á Eyrarbakka. Vigdís fylgdi Guðmundi eftir á heilu ræktunarári frá sáningu að vori fram að uppskeru og söluferlinu að hausti og vetri. Myndirnar veita frísklega sýn á vinnuár rófubóndans í samtvinningi við glefsur úr viðtölum við Guðmund. Nokkrir vel valdir gripir sem tengjast rófuræktun skreyta sýninguna.

Rófubóndinn hefur hlotið verðskuldaða athygli safngesta. Fjölmargir Íslendingar þekkja rófuræktun af eigin raun og upp vakna góðar minningar tengdar rófum.

Guðmundur hefur sett niður rófur í 53 ár og meðaluppskeran á ári er um 60 tonn. Guðmundur segir að stærsta breyting í rófurækt hafi verið niðursetningin þegar hætt var að nota sáningarhjól og til sögunnar komu sáningarvélar tengdar við traktor. Nú er hins vegar ævistarfinu lokið og hann er nýhættur störfum. Það var því einstaklega heppileg tilviljun að Vigdís ljósmyndaði hann þetta síðasta vinnuár.

Gulrófan hefur verið á matarborðum Íslendinga í 200 ár og jafnvel þótt hún sé ekki eins vinsæl og áður og rófubændum fari fækkandi þá er rófan ennþá ein þjóðlegasta matvara okkar.

Sýningin er í borðstofu Hússins og stendur yfir í allt sumar fram til 1. september. Önnur sýningarhús Byggðasafns Árnesinga eru Sjóminjasafn, Kirkjubær og Eggjaskúr og safnið er opið daglega kl. 11–18.

Nýjar fréttir