8.9 C
Selfoss

Gleði og gaman á Flúðum um Versló

Vinsælast

Laugardagurinn á Flúðum gekk vonum framar og var gríðarlegur fjöldi saman komin á hátíðarhöldum sem stóðu frá hádegi og fram á nótt.

Þótt sólin hafi ekki látið sjá sig á Flúðum var hlýtt og þurrt í veðri. Dagurinn hófst á barna- og fjölskylduskemmtun í hádeginu í Lækjargarði og við félagsheimilið. Þar voru Sprell leiktæki, Ljósbrá Loftsdóttir, söngkeppni fjölskyldunnar, BMX Brós, spennandi markaðir og matarupplifanir meðal annars.

Upp úr þrjú hófst mikil skrúðganga þegar mannskapurinn færði sig um set og kom sér fyrir í Torfdalnum til að fylgjast með Vélfangs Traktoratorfærunni. Áhorfendur voru nokkur þúsund, en það ekki óvanalegt fyrir þennan vinsælasta viðburð verslunarmannahelgarinnar á Flúðum. Eftir harða keppni stóð Óskar Björnsson uppi sem sigurvegari en hann ók Massey Ferguson dráttarvél.
Nánar um Traktoratorfæruna má finna hér:

https://www.sunnlenska.is/ithrottir/oskar-sigradi-i-traktoratorfaerunni/

Eftir torfæruna myndaðist mikil stemning á tjaldsvæðinu sem og Flúðasvæðinu öllu þegar kveikt var undir grillinu. Ilmurinn í uppsveitunum var óviðjafnanlegur, enda flestir íbúar Flúða sem bjóða heim þessa helgi.

Kvölddagskrá hófst á tónleikum í félagsheimilinu þar sem Eyþór Ingi ásamt hljómsveit tók hvern slagarann á fætur öðrum frá blómatímabili rokksins. Tónleikarnir voru sannarlega á heimsmælikvarða. Til vitnis um spilagleðina á sviðinu má geta þesss að tónleikarnir stóðu langt fram yfir auglýstan opnunartíma á dansleiknum sem fylgdi. Hljómsveitin Made in sveitin sem hafði umsjón með stórhátíðardansleiknum. Hreimur og félagar héldu sennilega sinn besta dansleik í manna minnum. Og það mátti líka sjá á glöðum gestum. Það var samdóma álit viðbragsaðila að dansleikurinn hafi farið með eindæmum vel fram og ekki kom til neinna stympinga. Allir skemmtu sér hið besta.

Í dag sunnudag verður hvergi slegið slöku við því helgin stendur sem hæst. Um hádegi opnar kaffihús og upplýsingamiðstöð „Flúðir um versló“ þar sem hægt er að gæða sér á gómsætum kökum, rjúkandi kaffi eða kakó og jafnvel gera það „írskt“ ef vilji er fyrir hendi. Sprell leiktæki opna á sama tíma. Leikhópurinn Lotta sýnir litlu hafmeyjuna í Lækjargarði klukkan 13:00 og svo fer fram „Furðubátakeppnin“ klukkan þrjú við brúna yfir litlu Laxá.

Brenna og brekkusöngur fer fram í Torfdalnum klukkan níu og svo kemur, að öðrum ólöstuðum, besta ballaband landsins Stuðlabandið fram á dansleik sem hefur verið kallaður „Heimamannaballið“. Þá flykkjast heimamenn á ball til að hitta gesti hátíðarinnar. Allir koma saman og gleðjast yfir frídegi verslunarmanna.

Dagskrá í heild má finna á facebook viðburðinum „Flúðir um versló 2019“.

Nýjar fréttir