7.8 C
Selfoss

Alheimsmót skáta 2019

Vinsælast

Skátastarf er fjölbreytt og oft ómögulegt að segja hvert það leiðir mann. Eftir að hafa farið á ótal skátamót innanlands, ákváðum við að taka næsta skref og halda utan á alheimsmót skáta í Bandaríkjunum.

Mótið var haldið í Vestur Virginíu og það voru u.þ.b. 45.000 skátar á mótinu. Í íslenska fararhópnum voru um 180 manns, þ.m.t. skátar, fararstjórar, sveitarforingjar og starfsfólk sem mynduðu 5 sveitir. Sveitin okkar hét Garmur og innan hennar voru skátar frá Fossbúum, Klakki á Akureyri, Kópum í Kópavogi og Svönum á Álftanesi.

Á mótinu var fjölbreytt dagskrá. Til dæmis var hægt að fara í mjög langa aparólu (zip line), prófa árabretti (stand up paddel boarding) og ýmislegt annað í vatnadagskrá, að skjóta úr skammbyssum og bogum, klifra við mismunandi erfiðar aðstæður, reyna sig við háloftabrautir, föndra o.m.fl.

Við upplifðum mjög miklar veðurbreytingar, það fór úr því að vera 28 stiga hiti og sól í hellidembu og þrumuveður á örskotstundu. Þú vissir aldrei við hverju væri að búast eða hverju þú myndir mæta. Á kvöldin kom svo þoka og lagðist yfir allt.

Við fengum nokkrar heimsóknir á tjaldsvæðið af björnum sem voru að leita sér að mat en þeir voru reknir til baka áður en nokkuð gerðist.

Á heimsóknardaginn var líf og fjör í tjaldbúðinni. Við útbjuggum íslenska kjötsúpu og leyfðum gestum að smakka, fræddum þá um norræna goðafræði, kenndum þeim rúnaletur og kindaleikinn sem felst í því að jarma á fimm mismunandi tungumálum.

Við kynntumst fullt af nýju og skemmtilegu fólki, erlendu sem innlendu, sem við fengum að njóta þessarar skemmtilegu upplifunar með. Mótið sjálft stóð í ellefu daga en við vorum á ferðalagi í sextán daga. Eftir mótið vorum við þrjá daga í Washington DC og þar skoðuðum við helstu kennileiti borgarinnar, heimsóttum skemmtigarð og söfn.

Þessi lífsreynsla var mjög skemmtileg og við munum aldrei gleyma þessari ferð.

Björk Gunnarsdóttir, Lingný Lára Lingþórsdóttir, Svanlaug Halla Baldursdóttir dróttskátar í Fossbúum.

Nýjar fréttir