Fyrirtækið Verkvík-Sandtak hefur í sumar séð um að sandblása og mála neðri hluta Ölfusárbrúar, eins og mörgum er eflaust kunnugt. Að sögn Gunnars Árnasonar, forstjóra Verkvíkur-Sandtaks hefur verkefnið gengið með besta móti.
„Verkinu miðar vel áfram og við höfum ekki orðið fyrir neinum töfum. Við erum rétt rúmlega hálfnaðir með sandblásturinn og fyrsta málningargrunninn. Sandblæstrinum lýkur um miðjan ágúst og þá minnkar allt ryk og hávaði sem óhjákvæmilega hlýst af því. Þá er eftir málningarvinna sem við reiknum með að vera í síðasta lagi búnir með í byrjun september.
Aðspurður um ástand brúarinnar segir Gunnar: „Brúin er að okkar mati í býsna góðu standi miðað við aldur. Hún hefur verið vel gerð í upphafi og er lítið sem ekkert farin að láta á sjá.“
Þegar hugmyndir bæjarbúa um að skipta um lit á brúnni voru bornar undir Gunnar segist hann hafa fengið veður af þeirri umræðu. „Það væri auðvitað gaman að setja nýjan lit á brúna og mögulega verður það gert einhvern tímann en það er auðvitað Vegagerðin sem ræður því,“ segir Gunnar að lokum.