9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Ari ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá HSU

Ari ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá HSU

0
Ari ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá HSU
Ari Sigurðsson.

Ari Sigurðsson hefur verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra fjármála við Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá 1. september 2019 til 5 ára. Ari tekur við starfinu af Þorbjörgu Guðnadóttur sem nú er tímabundið settur framkvæmdastjóri fjármála hjá HSU.

Ari var valinn úr hópi 14 umsækjenda og uppfyllir mjög vel allar menntunar- og hæfniskröfur sem settar voru fram fyrir starfið. Hann er fæddur árið 1962 og lauk námi í viðskiptafræði (Cand. Oecon) frá Háskóla Íslands árið 1987 og MBA gráðu frá Norwegian Business School, BI Oslo árið 1993.

Ari hefur víðtæka reynslu og þekkingu af fjármálastjórn, áætlanagerð, samningagerð, innkaupum og starfsmannahaldi. Hann starfaði við sérfræðistörf á fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðueytisins með og eftir MBA nám. Þá var hann deildarstjóri við Sparisjóðabanka Íslands og framkvæmdastjóri fjármálasviðs Myllunnar-Brauðs. Hann var framkvæmdastjóri Hjartaverndar 2002–2006. Eftir það starfaði Ari sem lána- og deildarstjóri hjá Íslandsbanka (áður Glitnir). Á árunum 2011–2013 starfaði Ari sem sérfræðingur við fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins en hefur á síðustu fimm árum starfað sem fjármálastjóri Fjármálaeftirlitsins.

Vegna tengsla við nokkra umsækjendur tilkynnti Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU heilbrigðisráðuneytinu um vanhæfi sitt til að taka ákvörðun um ráðningu í starfið og var Jóhanna F. Jóhannesdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sett af hálfu heilbrigðisráðuneytisins, sem forstjóri HSU til að undirbúa og taka ákvörðun um ráðningu í starfið.