12.3 C
Selfoss

Héraðsnefnd Árnesinga fjallaði um málefni Laxabakka

Vinsælast

Á vorfundi Héraðsnefndar Árnesinga sem haldinn var í Árnesi 10. maí sl. var m.a. rætt um málefni Laxabakka og afstaða tekin til mála. Árni Eiríksson úr Flóahreppi fór yfir málefni Laxabakka á fundinum.

Í máli Árna kom fram að Laxabakki er á landi í sameiginlegri eigu Landverndar og Héraðsnefndar Árnesinga í Öndverðarnesi 2, á austurbakka Sogsins. Laxabakki er burstabær eða hús sem byggt var sem sumarhús árið 1943. Húsið var í eigu Ósvaldar Knudsen. Árið 2018 eignaðist Íslenski bærinn ehf. í Meðalholtum í Flóa húsið.

Í fundargerð Héraðsnefndar segir: „Um árabil hefur staðið deila um hvort og þá hversu stór eignarlóð tilheyri húsinu og stendur þessi deila enn. Alviðrunefnd hefur ítrekað látið skoða málið og niðurstaðan ávallt verið sú að húsinu tilheyri engin eignarlóð og þannig stóð málið einnig þegar Íslenski bærinn eignaðist húsið. Var það skilningur Alviðrunefndar að ætlunin væri að færa húsið að Meðalholtum og endurreisa það. Það virðist síðan hafa breyst.

Núverandi eigandi hússins hefur lýst því yfir að Landvernd og Héraðsnefnd hafi ekki viljað leysa þetta mál. Þó hefur Alviðrunefnd lýst yfir vilja til að finna farsæla lausn þannig að gera megi við húsið þar sem það er.

Hendur Hérðasnefndar eru að sumu leyti bundnar í málinu þar sem meðeigandanum að landinu, Landvernd, er mjög annt um að ekki sé gengið á þann birkiskóg sem þarna er og að framkvæmdum í kringum umrætt hús verði haldið í algeru lágmarki.“

Eftir umræður um málið samþykkti Héraðsnefnd Árnesinga eftirfarandi ályktun:

„Héraðsnefnd Árnesinga vill fyrir sitt leyti ítreka vilja til verndunar menningarsögulegra minja á húsinu á Laxabakka í landi Öndverðarness. Ljóst er að ágreiningur er á milli aðila hvort húsið standi á sér lóð. Sá ágreiningur verður ekki leystur nema fyrir dómstólum. Vorfundur Héraðsnefndar Árnesinga felur framkvæmdastjórn ásamt fulltrúa Héraðsnefndar í Alviðrunefnd að vinna að framgangi málsins í samræmi við umræður á fundinum.“

Því má bæta við að á vorfundinum var Smári Bergmann Kolbeinsson, úr Grímsnes- og Grafningshreppi, skipaður í stjórn Alviðru í stað Árna Eiríkssonar sem óskaði eftir lausn frá setu í stjórninni.

Nýjar fréttir