4.4 C
Selfoss
Home Fréttir Grímur frumsýnir Héraðið um miðjan ágúst

Grímur frumsýnir Héraðið um miðjan ágúst

0
Grímur frumsýnir Héraðið um miðjan ágúst

Héraðið, ný íslensk kvikmynd eftir leikstjórann Grím Hákonarson, verður frumsýnd miðvikudaginn 14. ágúst nk. í bíóhúsum um allt land. Grímur leikstýrði m.a. hinni margverðlaunuðu kvikmynd Hrútar og heimildamyndunum Hvelli og Litlu Moskvu.

Héraðið gerist í litlu samfélagi og segir sögu Ingu, miðaldra kúabónda, sem gerir uppreisn gegn kaupfélaginu á staðnum. Hún reynir að fá aðra bændur í lið með sér en það gengur erfiðlega þar sem kaupfélagið hefur sterk ítök í sveitinni.

Arndís Hrönn Egilsdóttir fer með hlutverk Ingu í myndinni. Hún hefur meðal annars leikið í sjónvarpsþáttunum Pressu og Föngum og í kvikmyndinni Þröstum en hún var tilnefnd til Edduverðlaunanna fyrir hlutverkið í þeirri síðastnefndu. Með önnur hlutverk í myndinni fara þau Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sigurður Sigurjónsson, Hinrik Ólafsson, Hannes Óli Ágústsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir.

Héraðið var tekin upp á rjómabúinu Erpsstöðum í Dölum, á Hvammstanga og Blönduósi.

Myndin er íslensk, dönsk, þýsk, og frönsk samframleiðsla en aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson hjá Netop Films, sem framleiddi bæði Hrúta og Undir trénu.

Hér er hægt að sjá stiklu myndarinnar: