2.7 C
Selfoss

Selfoss í bikarúrslit í þriðja sinn

Vinsælast

Stelpurnar í meistaraflokki Selfoss tryggðu sér sl. föstudagskvöld sæti í úrslitaleik Mjólkurbikarsins er þær unnu Fylki 1:0 á Fylkisvellinum í Árbænum. Grace Rapp skoraði sigurmarkið á 75. mínútu eftir fyrirgjöf frá Önnu Maríu Friðgeirsdóttur.

Bæði lið fengu sín færi í fyrri hálfleik en tókst ekki að skora og staðan því 0:0 er flautað var til leikhlés. Sama var upp á teningnum í síðari hálfleik. Bæði lið hefðu getað sett boltann í netið. Markið sem réði úrslitum kom svo á 75. mínútu. Selfyssingar voru sterkari síðasta hálftímann og lönduðu því nokkuð öruggum sigri.

Selfyssingar höfðu fyrir leikinn unnið Stjörnuna 2:3 og HK/Víking 2:0. Fylkir lagði Breiðablik 1:0 og ÍA 0:6.

Í hinum undanúrslitaleiknum áttust við KR og Þór/KA á Meistaravöllum í Reykjavík. Þar höfðu KR-ingar sigur 2:0 og mæta því liði Selfoss í úrslitaleiknum sem fer fram á Laugardalsvellinum laugardaginn 17. ágúst kl. 16:00.

Stelpurnar í liðið Selfoss eru nú á leið í þriðja úrslitaleikinn í bikarkeppninni síðan 2014. Þær léku í fyrsta skipti til úrslita í Borgunarbikarnum 2014 og töpuðu þá fyrir Stjörnunni 4:0. Þær komust líka í úrslit 2015 og töpuðu naumlega fyrir Stjörnunni 2:1. Vonandi tekst þeim að vinna bikarinn núna er þær mæta KR.

Stuðningsmenn Selfoss hafa verið duglegir að mæta á leiki og láta í sér heyra. Búast má við að svo verði á úrslitaleiknum laugardaginn 17. ágúst. Góð stemning og góður stuðningur skipta gríðarlega miklu máli. Nú þurfa allir að leggjast á eitt og koma með bikarinn yfir brúna.

Nýjar fréttir