0.4 C
Selfoss
Home Fréttir Langamma mín potaði í mig með prjóninum

Langamma mín potaði í mig með prjóninum

0
Langamma mín potaði í mig með prjóninum
Hlíf Sigríður Arndal.

Hlíf Sigríður Arndal, lestrarhestur Dagskráinnar, er fyrrverandi forstöðumaður bókasafnsins í Hveragerði til nær 20 ára. Hún er Hvergerðingur síðan 1980 en alin upp í smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Gift Jóni Sigurðssyni bólstrara með meiru. Þau eiga þrjú frábær, vel gerð og hörkudugleg börn og fjögur yndisleg barnabörn. Hlíf er áhugamanneskja um íslenskt mál, bókmenntir, lestur, vísindi, listir og allt skapandi starf.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég var rétt að byrja á bókinni Hasim sem ég fékk að láni á Bókasafninu í Hveragerði. Bókasafnið er með lestraráskorun í gangi sem ég er rúmlega hálfnuð með og ein áskorunin er að lesa ævisögu. Rak augun í þessa bók og mundi þá að ég hafði ætlað mér að lesa hana þegar hún kom út því hún virtist áhugaverð sem hún svo sannarlega er.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég er eiginlega alæta á bækur. Les flest nema kannski bækur um stjórnmál. Og það fer talsvert eftir dagsforminu hvað mig langar til að lesa hverju sinni. Bækur með góðum söguþræði og/eða athyglisverðum sögupersónum sem vekja áhuga og gera mig forvitna um framhaldið finnst mér skemmtilegast að lesa. Sögulegar skáldsögur, ævintýrabækur, vísindaskáldsögur, spennusögur, ástarsögur en ég hef einnig mjög mikla ánægju af því að lesa ljóð. Glæpareyfarar eru góð afþreying, en svo get ég allt í einu fengið nóg af þeim ef ég er búin að lesa nokkra í röð.

Varstu lestrarhestur á yngri árum?
Ég hef alltaf verið lestrarhestur eða bókaormur. Langamma mín kenndi mér að lesa þegar ég var fimm ára. Þá sat ég hjá henni við borð og stafaði og kvað að og hún sat á rúminu sínu og prjónaði. Ef ég las vitlaust potaði hún í mig með prjóninum. Hún kunni bækurnar utan að, hafði kennt svo mörgum börnum að lesa. Svo voru „frímínútur“. Þá fékk ég mjólk og matarkex eða brauðsneið í eldhúsinu og ef það var gott veður mátti ég leika úti í stutta stund. Þegar ég var sjö ára gaf langamma mér bókina Ævintýri eftir Jóhann Magnús Bjarnason í jólagjöf. Líklega fannst henni ég vera orðin nógu læs enda las ég bókina spjaldanna á milli þrátt fyrir að ég skildi hvorki orðin né sögurnar. Þegar ég las þessa bók aftur sem fullorðin manneskja fannst mér merkilegt að ég mundi margar sögurnar og hvað þær voru einkennilegar og sumar óhugnanlegar. Ég man ekki eftir að það hafi verið lesið fyrir mig en fólkið mitt las mikið. Við systurnar fengum alltaf bækur í jóla- og afmælisgjafir. Ég man sérstaklega eftir nokkrum bókum úr barnæskunni eins og Litla músin og stóra músin sem var bæði spennandi og sorgleg, Ævintýri litla tréhestsins sem ég hágrét yfir og Litla uglan hennar Maríu sem mér fannst ægilega spennandi. Ég var minna spennt fyrir Línu langsokk en bækur Enid Blyton og seinna Möttu-Maju bækurnar, Siggu bækurnar og Beverly Gray las ég spjaldanna á milli. Fyrir tólf ára aldur var ég búin að lesa meira og minna bækur Jóhanns Sigurjónssonar, ljóðasafn Einars Benediktssonar, talsvert af ljóðum Davíðs Stefánssonar, þjóðsögur Jóns Árnasonar og Þúsund og eina nótt.

Hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?
Ég hef svo sem engar sérstakar lestrarvenjur. Les hvar sem er og hvenær sem tækifæri gefst á síma og í tölvu. Ég hef ekki komist upp á lag með að hlusta á hljóðbækur nema helst í bílnum. En alvöru bækur eru uppáhalds og þær les ég gjarna í rúminu áður en ég fer að sofa eða í uppáhalds stólnum mínum í stofunni þar sem ég les stundum um helgar, helst á sunnudagsmorgnum.

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund?
Ég get varla sagt það en það eru margir höfundar sem mér finnst gaman að lesa. Af erlendum höfundum langar mig að nefna Henning Mankell. Fyrstu bækurnar eftir hann sem voru þýddar á íslensku voru barnabækur. Á þeim tíma vann ég á skólasafninu og las eins mikið af barnabókum og ég komst yfir til að geta sagt börnunum frá og mælt með bókum. Mér fundust þessar bækur mjög sérstakar, þunglyndislegar og eiginlega frekar fyrir fullorðna. Seinna var farið að þýða glæpasögur eftir Mankell og mér fannst þær bæði spennandi og fróðlegar. Síðustu bækurnar voru samt toppurinn, með einstaklega áhugaverðum persónum og ófyrirsjáanlegum söguþræði. Annar erlendur höfundur, C. J. Sansom, hefur verið í uppáhaldi nú í nokkur einkanlega bækurnar í Shardlake seríunni. Þetta eru sögulegar skáldsögur sem gerast á Englandi á 16. öld, þar sem lögfræðingurinn Shardlake sem er krypplingur leysir úr ýmsum málum og lendir í ótrúlegum ævintýrum. Sögusvið og allar lýsingar eru svo ljóslifandi að það liggur við að maður finni lyktina á meðan maður les. Þetta eru orðnir sex doðrantar og bíður sá nýjasti Tombland á náttborðinu. Af íslenskum höfundum vil ég nefna Jón Kalmann Stefánsson, Guðrúnu Evu Mínervudóttur og Auði Övu Ólafsdóttur sem alltaf ná að snerta við mér. Svo nýt ég þess að lesa hækurnar hans Pjeturs Hafsteins Lárussonar á Facebook.

Hefur bók rænt þig svefni?
Margoft hafa bækur rænt mig svefni þó sérstaklega þegar ég var yngri. Ég man eftir lestri með vasaljós undir sænginni á barnsaldri og mörgum vökunóttum á unglings- og fullorðinsárum þar sem spennan varð syfjunni yfirsterkari. Á fullorðinsárum get ég kannski nefnt bækur Stephen King en bækurnar hans voru svo spennandi að á endanum gafst ég upp á að lesa þær

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ef ég væri rithöfundur myndi ég líklega leggjast í grúsk og skrifa fræðibækur um eitthvert efni sem ég fengi sérstakan áhuga á. Eða reyna mig við ljóðformið. En ég er ekki rithöfundur svo hvort tveggja er mjög ólíklegt. Einhverjir verða líka að lesa og tala um bækurnar sem eru skrifaðar og ég tek það að mér með glöðu geði.